135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:01]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég hallast að því að það sé rétt undir þessum dagskrárlið að fjalla um það þingmál sem hér liggur fyrir en ekki um önnur þingmál sem ekki liggja frammi á þessu þingi. Það er vissulega rétt að ég hef stutt þau mál sem hv. þingmaður hefur vísað til en ég tel að sameiginlega væri óheppilegt að afgreiða þau öll á sama tíma. En ég ætla ekki að fara út í efnisatriði þeirra mála í þessari umræðu enda er þetta eina málið sem liggur fyrir þinginu sem nú er nýhafið.

Hv. þingmaður virðist bara líta á þetta mál sem reikningsdæmi þar sem við leggjum saman debetreikninginn og kreditreikninginn og fáum einhverja niðurstöðu og að þannig getum við afgreitt þetta mál. Þetta mál snýst ekki um neina útreikninga. Með þessari aðferðafræði getum við farið yfir fjölmörg svið mannlífsins og sagt að ekki borgi sig að leyfa fólki yfir höfuð til að mynda að reykja. Það kemur á óvart að hv. þingmaður skuli ekki komast að þeirri niðurstöðu að banna sígarettur með öllu á Íslandi og vindlinga og allt sem því fylgir eða leggja það einfaldlega til að ríkið eitt sjái um sölu á tóbaki eða þá að hækka aldursviðmiðið til kaupa á þessu. Reyndar er hægt að halda endalaust áfram á þessari braut og reikna út hvað það kostar okkur að lifa í sæmilega opnu og frjálsu þjóðfélagi. En í þannig samfélagi viljum við einfaldlega ekki búa og það er með því að hafa aukið frelsi hér á landi sem okkur hefur tekist að búa til miklu opnara, frjálsara, vinsamlegra og mannvænna samfélag og við eigum að halda því áfram.

Ég vil bara láta þess getið að lokum að ég er tilbúin að ræða ýmsar aðgerðir til að vega upp á móti mögulegum neikvæðum áhrifum af þessu frumvarpi og það er hægt að horfa til útlanda í því sambandi vegna þess að þar er (Forseti hringir.) ýmislegt gert sem við gætum horft til til að draga úr neyslunni.