135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:28]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við þessari ræðu hv. þingmanns með því að segja að þetta mál snýst ekki bara um útreikninga. Það er ekki hægt að koma hingað upp og leggja fram tölur því til stuðnings að þetta sé vont mál og sé algjörlega ómögulegt mál á grundvelli einhverra útreikninga.

Auðvitað horfum við til þeirra staðreynda sem tíndar eru til hér um áhrif á heilsu fólks af völdum áfengisneyslu en þetta mál snýst ekkert um það að lögleiða áfengissölu á Íslandi. Málið snýst um það að ekki er ástæða til að binda það í lög að ríkið sjái eitt um smásölu á áfengi. Það snýst einfaldlega um þetta og við skulum halda því í þeim farvegi. Við skulum ekki þvæla málið með öllum sköpuðum hlutum öðrum en frumvarpið fjallar um. Það snýst bara um það.

Ég hef saknað þess í umræðunni að andstæðingar málsins kæmu hér upp með aðeins málefnalegri nálgun á þetta. Við getum rætt hér hvort ástæða sé til að grípa til frekari aðgerða sem lúta að forvörnum vegna áfengisneyslu á Íslandi. Það kann vel að vera að ástæða sé til að grípa til ráðstafana ef við ætlum að taka þetta skref og það er þá eitthvað sem við þingmenn skulum í tengslum við þetta mál ræða einfaldlega í nefnd og í umræðu á þinginu og spyrja: Er ástæða til að grípa til einhverra ráðstafana ef við ætlum að gera þessa breytingu? Ég er til í þá umræðu alveg hikstalaust hvenær sem er vegna þess að ég viðurkenni þær tölur sem menn eru að vísa til frá öðrum löndum og við höfum héðan frá Lýðheilsustöð og öðrum og nú nýjast frá landlæknisembættinu. Auðvitað viðurkennir maður þessar tölur en við skulum ekki láta þær trufla sjón okkar á aðalatriði málsins sem er það að ekki er nauðsynlegt að íslenska ríkið reki og sjái um smásölu á áfengi á Íslandi heldur geta einkaaðilar líka gert það og það er ástæða til að treysta þeim til þess.