135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er ekki nauðsynlegt að ríkið annist dreifingu áfengis á Íslandi. Það er ekki nauðsynlegt. En það er ekki útilokað að við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé hagkvæmast og best út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef tilgreint hér sem er málefnaleg nálgun á þessa umræðu. Ég hafna því að ekki sé reynt að ræða þetta málefnalega. Við erum að velta því fyrir okkur hvort breytt fyrirkomulag sé til hagsbóta fyrir samfélagið og fyrir neytandann. Við færum fram rök fyrir því að svo sé ekki.

Við hlustum að sjálfsögðu á málflutning þeirra sem flytja frumvarpið. Einn þingmaður sagði í umræðu í gær eða fyrradag að það væri mjög mikilvægt að tryggja fólki betra aðgengi að víni, það væri þægilegt að geta tekið hvítvínsflösku um leið og fiskfarsið væri keypt og tekið aðra rauða með kjötinu. Þetta væri mjög til hagsbóta. Ég fékk reyndar bréf, eða grein öllu heldur sem ég birti á heimasíðu minni, eftir Einar Ólafsson sem sagðist hafa miklu meiri áhyggjur af aðgengi að kjöti og fiski á hagstæðara verði. Sér fyndist það miklu meira mál, að tryggja gott aðgengi að matvöru. Hitt væri sér minna mál enda geymsluþol áfengisins ágætt.

Ég held að við verðum að nálgast þessa umræðu á ábyrgan hátt. Og við eigum að hlusta á hvað Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir okkur. Að sjálfsögðu þurfum við líka að taka alvarlega þau markmið sem stjórnvöld setja sér varðandi heilbrigðisáætlun, forvarnir og annað af því tagi. Ég hafna því algerlega að við nálgast þessa umræðu ekki á málefnalegan hátt af því að það gerum við.