135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:32]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kalla einfaldlega eftir því að við skoðum þetta mál í dálítið víðara samhengi en andstæðingar frumvarpsins hafa viljað gera. Þótt ég fagni því í sjálfu sér að hv. þm. Jón Bjarnason skuli horfa svo stíft til leiðara Morgunblaðsins þá mætti hann oftar lesa upp úr leiðara Morgunblaðsins í pólitísku samhengi. En auðvitað er það ekki málefnalegt að gera í sjálfu sér ekki annað en að tína upp það sem áður hefur komið fram í málinu og tala um að málinu sé einungis teflt fram af mikilli þröngsýni.

Ég hef t.d. ekki orðið var við það í mínu sveitarfélagi, þar sem Áfengisverslun ríkisins opnaði útibú fyrir nokkrum árum, að bullandi óánægja sé með það í því sveitarfélagi. Vissulega voru einhverjir ósáttir við það. En ég hef ekki orðið var við það að margir í mínu sveitarfélagi hafi kosið að hunsa þá verslun og sækja áfengið annað í mótmælaskyni. Ég veit ekki annað en að það sé mikil sátt með það og ánægja. Reyndar gildir hið sama um þá miklu fjölgun sem hefur orðið á útsölustöðum ÁTVR. Mér finnst ríkja mikil sátt um þá stefnu.

En hvernig getur það staðist, í umræðunni um að aukið aðgengi auki vandamálin vegna áfengisneyslu? Hvernig getur það staðist að almenn ánægja sé með það að ÁTVR fjölgi útsölustöðunum á sama tíma og við horfum á þessar staðreyndir? Þetta þurfum við að ræða af einhverri yfirvegun. Við þurfum að skoða það í meðförum þingsins. Hver er hættan á hinni auknu neyslu í tengslum við þær breytingar sem hér eru lagðar til? Við skulum gera það af yfirvegun og einhverri skynsemi.