135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:37]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég deili sjónarmiðum þeirra sem lagst hafa gegn því frumvarpi sem hér er til umræðu. Tilefni þess að ég flyt þessa ræðu er tölvupóstur sem barst til hv. þingmanna í Suðurkjördæmi í dag. Þeir eru auk mín hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen, hv. þm. Björk Guðjónsdóttir, Árni Johnsen, hæstv. ráðherra Björgvin G. Sigurðsson, hv. þm. Guðni Ágústsson, Grétar Mar Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Kjartan Ólafsson og Bjarni Harðarson. Þessi póstur var enn fremur sendur til hv. þm. Einar Más Sigurðarsonar og hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar K. Gunnarsdóttur.

Þessi póstur vakti mig til verulegrar umhugsunar, ekki bara efni hans heldur hver skrifar bréfið. Það var frá fræðslustjóra Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, Eiríki Hermannssyni. Þar segir hann að þessi umræða um að heimila sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum hafi ekki farið fram hjá honum. Hann segir í póstinum að hann hafi áhyggjur af því sem nú eigi sér stað á Alþingi. Síðan segir hann orðrétt, og tilvitnunin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sjálfur hef ég unnið að uppeldismálum í um 30 ár. Fyrst sem kennari og skólastjóri og síðustu 11 árin sem fræðslustjóri Reykjanesbæjar. Ég tel mig hafa þokkalega innsýn í forvarna- og fræðslumál og þann árangur sem við Íslendingar höfum náð á undanförnum árum í baráttu gegn vímuefnanotkun og áfengisneyslu ungs fólks.

Ég hef áhyggjur af þessu máli. Við Suðurnesjamenn höfum unnið ötullega að forvarna- og vímuvarnarmálum á undanförnum tíu árum og nýtt okkur niðurstöður Rannsókna og greininga ehf., áður RUM, um hagi og líðan ungs fólks. Upplýsingar þessar hafa gagnast vel í þeirri baráttu og gefið gagnlegar upplýsingar og vísbendingar sem við höfum notað til fræðslu fyrir ungmenni og foreldra og aðra sem málið varðar.

Ég veit til þess að svipað hefur verið uppi á teningnum hjá sveitarfélögum um landið. Niðurstaðan er þessi. Stórlega hefur dregið úr áfengisneyslu unglinga á síðustu tíu árum. Á sama tíma hefur hún aukist í nær öllum Evrópulöndum. Það er ekki slæmur árangur. Hann hefur ekki aðeins náðst með forvarnastarfi heldur einnig vegna þess að við höfum borið gæfu til að takmarka aðgengi að áfengi með okkar dreifingar- og sölukerfi.“

Síðan segir orðrétt í póstinum, með leyfi herra forseta:

„Með því að samþykkja umrætt frumvarp erum við að stofna árangri okkar í forvarna- og áfengismálum í stórhættu með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Það er alvarlegt mál. Ég vona að við berum gæfu til að standa vörð um hag og velferð ungmenna hér á landi og legg til að frumvarpi þessu verði hafnað umsvifalaust.“

Svo mörg voru þau orð en bréfinu fylgdi tafla sem sýnir svart á hvítu hvaða árangri fræðslustjórinn og hans góða fólk hefur náð á Reykjanesi. Hún sýnir enn fremur að þeim árangri hefur verið náð um land allt. Þarna talar maður með mikla reynslu. Mér er gjarnt, þegar ég tek afstöðu, að horfa til þess hvað sérfræðingar segja eða þeir sem umgangast börn hvað mest og hvað nánast.

Ég geri þess orð heils hugar að mínum. Við erum ekki að tala um mjólk og brauð. Ég held að við getum öll verið sammála um að við erum að tala um vímuefni. Hér er einn eitt „frelsisfrumvarpið“, það er í gæsalöppum enda án ábyrgðar, án hugsunar. Hér er ábyrgðarlaust frelsi á ferðinni. Eða á ég kannski að segja hugsunarlaust frelsi á ferðinni. Í þessu frelsisupphafi eru endirinn og ábyrgðin ekki skoðuð. Af hverju segi ég það? Jú, frumvarpinu fylgir frelsi, leyfi til að selja léttvínið í verslunum en því fylgja engar forvarnir, tillögur um auknar forvarnir eða hvernig eigi að mæta þessu aukna frelsi. Engar forvarnir. Ekki orð um það í frumvarpinu. Ekki orð um þá ábyrgð sem leiðir af því að auðvelda aðgengi ungmenna að áfengi. Ekki orð.

Það fylgir heldur ekki þessu frumvarpi neinn áskilnaður, fyrirætlun eða nokkur skapaður hlutur um forvarnafé, sem stofnanir ríkisins sem sinna lýðheilsu hafa kallað eftir, ekki bara í baráttunni gegn áfengisvandanum heldur gegn fíkniefnavandanum sem er stórfelldur og allir í þessum sal hafa þungar áhyggjur af.

Nei, þvert á móti er verið að spilla fyrir forvarnastarfi. Það kemur skýrt og glöggt fram hjá þeim reynslumikla fræðslustjóra sem sá sig knúinn til að skrifa þingmönnum og ráðherrum bréf. Með því er þeirri uppbyggingu sem hefur náðst á síðustu tíu árum stefnt í óefni. Ég spyr: Er næst á dagskrá frelsi til að leggja niður sjúkrahús og heilsugæslu? Segja hv. flutningsmenn þessa frumvarps þá: Hver er sinnar gæfu smiður. Viljum við hafa það þannig að hver sé sinnar heilsu smiður og beri ábyrgð á henni? Eigum við að leggja niður skólakerfið og segja: Hver er sjálfum sér næstur um menntun? Eigum við að gera það? Auðvitað svara allir þessu neitandi.

Ef það gerist sem ég hef nefnt, hvað gerist þá? Reisa þá ofurauðmennirnir sér og sínum börnum og fjölskyldum einkasjúkrahús og einkaskóla? Þeir fara létt með það miðað við milljarðaeinkaþoturnar sem þeir koma á til Íslands og fara á frá Íslandi. Það verður niðurstaðan, eins og hér hefur margkomið fram, að í stað ábyrgrar áfengisverslunar og verslunarreksturs ÁTVR kemur einokun stórverslana. Hvað verður þá um heildsalana sem eru birgjar fyrir áfengisverslunina? Hve lengi hefur maður heyrt bændur í landbúnaði, kartöflubændur, grænmetisræktendur og marga fleiri, kvarta sáran yfir þeim kverkatökum sem einokunarverslunin hefur haft á þeim á Íslandi? Það er svo slæmt í kartöflunum að fjöldi kartöfluræktenda gefst upp á hverju ári vegna þess að einokunarmatvöruverslanir halda þeim í heljargreipum verðlagsins. Hafa frjálshyggjumenn Sjálfstæðisflokksins ekki áhyggjur af heildsölunum heldur?

Ég spurði líka um ábyrgð. Í 10. gr. frumvarpsins segir að starfsmenn sem afgreiði áfengi megi ekki vera yngri en 20 ára. Hvernig á að fylgjast með því? Hvernig á það að ná fram að ganga? Það vita allir foreldrar, allir sem versla í stórverslunum, að misbrestur er á því eftirliti sem þarf að vera í verslunum gagnvart tóbaki. Það eru ungmenni 13–16 ára sem afgreiða tóbak og mega það ekki. Reyndar hafa ákveðnar verslanir alveg komið í veg fyrir það með skápum en það er alls ekki svo alls staðar. Og ungmenni eru að selja ungmennum tóbak sem ekki mega kaupa það. Hvar er eftirlitið? Það er ekkert. Því hafa menn lýst yfir sem standa í tóbaksvörnum að það sé eftirlitslaus sala til ungmenna á tóbaki. Þar er um að ræða eftirlitslausa og ábyrgðarlausa sölu í allt of mörgum tilvikum.

Ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það er mikil, vaxandi og afar skiljanleg andstaða gegn því sem ég vil kalla frjálshyggjutrúarbrögð, þar sem frelsið er upphafið en ábyrgðin kemur ekki á eftir, að hver sé sjálfum sér næstur og eigi ekki að gæta bróður síns eða barna. Eigum við ekki að gera það? Eru það ekki grunngildi þjóðfélagsins? Það sem verra er; frumvarpið er andstætt stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Það er andstætt stefnu Lýðheilsustöðvar sem framfylgir ríkisstjórnarstefnu. Lýðheilsustöð hefur lagst harkalega gegn þessu. Enda er frumvarpið verulega vanhugsað og flutningsmenn ættu að draga það til baka.

Ég spyr líka eins og margir hafa spurt: Er þetta brýnasta mál þeirra þingmanna sem standa að þessu frumvarpi? Það segir meira um þá hv. þingmenn en margt annað. Er þetta það sem brennur á? Er þetta það sem brennur á þeim? Þetta minnir mig á Neró sem spilaði á fiðlu þegar Róm brann. Það minnir mig á það. Er ekki mikilvægara að við eyðum þremur, fjórum dögum hér í hvern og einn einstakan málaflokk sem ég ætla hér að nefna: Í málefni aldraðra og öryrkja. Í vímuefnamálin, að koma betri böndum á þau. Í málefni barna með geðraskanir sem er stórfellt vandamál á Íslandi og vanræktur málaflokkur sem er skvett í litlum 150 millj.

Með hverju barni sem við björgum, sem lendir ekki í fíkniefnaklóm, þá spörum við þjóðfélaginu kannski 300 millj. kr. Er það ekki mikilsverðara mál en að auka aðgengi ungmenna að áfengi? Hvað með að ræða búseturöskun og fólksflótta af landsbyggðinni? Hvað með að ræða fjarskipti landsbyggðarfólks? Hvað með að ræða það að landsbyggðarfólk býr ekki við jafnræðið sem stjórnarskráin áskilur því varðandi menntun og fleira? Hvað með að ræða réttindamál kvenna? Er ekki brýnna að ræða kynbundinn launamun, sem er brot á stjórnarskránni? Er ekki brýnna að verja þremur dögum í það að ræða kynbundið ofbeldi á Íslandi? Ég spyr þá hv. þingmenn sem standa að þessu frumvarpi: Er ekki brýnna að ræða fiskveiðistjórnarkerfið sem þarfnast heildarendurskoðunar? Er ekki brýnna að ræða kjör umönnunarstétta, starfsfólk á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, barnaheimilum, leikskólum, skólum, dvalarheimilum aldraðra og svo mætti lengi telja. Er ekki brýnna að ræða kjör sjómanna og fiskverkafólks sem verða fyrir verulegum skerðingum í kaupi og kjörum á árinu sem fer í hönd? Auðvitað er það miklu brýnna.

En því virðast hv. flutningsmenn ekki átta sig á og setja þetta mál í forgang. Það er með ólíkindum að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Árni Páll Árnason, Pétur H . Blöndal, Birkir Jón Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Ásta Möller, Ólöf Nordal, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir skuli telja þetta mál svo mikilvægt að það þurfi að eyða þessum tíma í það. Ég segi við þessa hv. þingmenn: Þið eruð öll á villigötum.