135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:52]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að hv. þm. Atli Gíslason fór mikinn í þessum ræðustól og gaf til kynna að flutningsmenn frumvarps um að afnema einkasölu ÁTVR á léttvíni og bjór hafi ekki áhuga á einum eða neinum öðrum málum sem hér liggja fyrir. Ég fullvissa hv. þm. Atla Gíslason um að ég skal mæta honum í umræðu um öll þau mál sem hann nefndi hér úr ræðustóli. Mér þykir miður að vera vænd um það að af því að ég er flutningsmaður frumvarps um að afnema einkasölu ÁTVR á léttvíni og bjór, þá hafi ég ekki áhuga á einu eða neinu öðru eða telji það mál brýnast af öllu. Ég fullvissa hv. þm. Atla Gíslason um að svo er ekki.

Og af hverju eyðum við öllum þessum tíma í að ræða þetta frumvarp? Ég er sammála hv. þingmanni um það. Mér finnst það eiginlega með ólíkindum og satt best að segja hélt ég að 1. umr. þessa máls tæki ekki svona langan tíma og að frumvarpinu yrði vísað til nefndar. En ég held að menn ættu að líta aðeins í eigin barm og fara yfir það hverjir tala mest um þetta mál og eyða tíma þingmanna í að hlusta á það í marga daga í stað þess að afgreiða það sem slíkt til nefndar, án þess að ég ætli mér að stjórna því hvenær menn tala og tala ekki.