135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:59]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég las upp úr bréfi fræðslustjóra áðan þar sem hann sagði að við hefðum borið gæfu til þess að takmarka aðgengi að áfengi með okkar dreifingar- og sölukerfi. Hér talar sérfræðingur, Lýðheilsustöð talar sömu röddu, skólamenn og aðrir sem best þekkja og koma að uppeldi ungmenna segja það líka.

Með þessu forvarnastarfi hefur dregið mjög verulega úr áfengisneyslu unglinga og við höfum náð bestum árangri af Evrópulöndum í þeim efnum. Það er verið að stefna þeirri þróun í hættu, við skulum ekki stefna þessum mikla árangri í óefni eins og fræðslustjóri segir, eins og Lýðheilsustöð segir og allir sérfræðingar í þessu máli.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir á auðvitað að vita þetta sem fyrrverandi sveitarstjóri í Mosfellsbæ. Hún á að mínu mati að taka meira mark á þeim sérfræðingum sem vísað hefur verið til. Hún á að taka meira mark á Lýðheilsustöð, hún á að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar í forvarna- og áfengismálum og lýðheilsu sem birtist í framkvæmd hjá Lýðheilsustöð. Við eigum að hlusta á rödd skynseminnar en ekki láta frelsishugsjónina, ábyrgðarlausu frelsishugsjónina villa okkur sýn.