135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

10. mál
[19:11]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Já, ég get, herra forseti, stutt þetta frumvarp og tekið heilshugar undir þá hugsun sem að baki býr og þakka góða kynningu á því. Ég vildi bæta örlitlu við þann rökstuðning sem að baki býr. Það er svona út frá hefðbundnum jafnræðissjónarmiðum sem ég segi það því að svo er að almenningi er mismunað eftir því hvernig hver og einstakur kýs að spara. Þeir sem kjósa að spara inn á bankareikning í banka sitja við betra borð en þeir sem kjósa að spara í gegnum reikninga hjá lífeyrissjóði. Leggi maður inn 10 þús. kr. á mánuði í bankabók safnast það auðvitað upp. Taki maður síðan út af þessari bankabók skerðir höfuðstóllinn ekki heldur eingöngu vextirnir. Vaxtatekjur skerða orðið eins og svo margt annað í þessu tryggingakerfi okkar. Ég þekki dæmi um einn ágætan Dagsbrúnarmann eða Eflingarmann sem fékk 20 þús. kr. styrk frá sjúkrasjóði fyrir jólin eins og ýmsir félagsmenn fá sem eru ekki vel staddir. Hann kom haustið eftir og sagði: „Viljið þið vera svo vænir að styrkja mig ekki aftur þessi jól,“ því að hann stóð uppi með 20 krónur þegar upp var staðið fyrir utan allan vandræðaganginn gagnvart Tryggingastofnun og þau spor sem hann mátti ganga fyrir þá til að fá leiðréttingu sinna mála sem hann fékk ekki. En 20 krónur voru afraksturinn út úr þessum styrk úr sjúkrasjóðnum.

Taki maður út úr séreignarsjóði lífeyrisins kemur það allt til skerðingar. Þetta er auðvitað nákvæmlega sami sparnaðurinn. Formið er bara mismunandi. Menn eru að spara til elliáranna eða spara fyrir einhverju og það breytir engu hvort maður gerir það inni á bankabók eða inni á lífeyrissjóði.

Annað dæmi þekki ég um einstakling sem greiddi inn á séreignarsjóð hjá banka og þegar hann leysti út séreignarsjóðinn sinn var öll fjárhæðin skattlögð, bæði höfuðstóllinn og áunnir vextir, og þetta var varðveitt í Landsbanka Íslands. Hefði þessi einstaklingur kosið að spara í gegnum bankareikning hjá Landsbankanum hefði hann eingöngu greitt 10% fjármagnstekjuskatt af áunnum vöxtum. Það sér hver heilvita maður að þetta er brot á jafnræðisreglum og þess vegna er hugsunin bak við þetta frumvarp góð að því er varðar séreignarlífeyrissparnaðinn. Svo ég ítreka það, herra forseti, að ég styð þetta frumvarp.