135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

10. mál
[19:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er óþarfi fyrir mig að fara í löngu máli yfir þetta ágæta mál sem hér er lagt fram. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hefur farið yfir þetta mál. Auk þess hefur hv. þm. Atli Gíslason tekið dæmi sem sýna hvernig séreignarsparnaðurinn hefur áhrif á tekjur fólks. Það er einfaldlega þannig að þegar maður verður öryrki, fær bætur og ætlar síðan að nýta séreignarsparnaðinn sem hann hefur safnað saman á þeim hluta ævinnar sem hann var frískur þá skerðir séreignarsparnaðurinn bæturnar frá Tryggingastofnun. Hefði fólk lagt féð á venjulega bók eða sparnaðarreikning hefði greitt 10% skatt af vöxtunum en þegar upphæðin er tekin út veldur það ekki skerðingu á örorkubótum örorkuþegans. Sama dæmi má taka um ellilífeyrisþegann varðandi séreignarsparnaðinn. Bætur hans skerðast vegna séreignarsparnaðar. Þarna er fólki mismunað eftir sparnaðarformi og ekki eðlilegt að því sé viðhaldið. Það er ósanngjarnt eins og það er útfært og reyndar eru nefnd í frumvarpinu ýmis fleiri atriði, t.d. bætur sveitarfélaga, félagsleg aðstoð o.s.frv. sem getur komið þannig niður að þær skerði aðrar bætur.

Síðasta vor var samþykkt frumvarp á Alþingi um að þegar eldri borgari verði sjötugur megi hann hafa hvaða tekjur sem hann vill án þess að hljóta nokkra skerðingu á tekjum. En á aldursbilinu frá 67 að sjötugu, þegar hann verður löggiltur eldri borgari, er skerðingin í fullu gildi eins og hún var áður. Þessu viljum við breyta og leggjum í þessu frumvarpi til að skrefið verði stigið að fullu og atvinnutekjur skerði hvorki bætur ellilífeyrisþega né örorkulífeyrisþega að þessu leyti.

Sama leggjum við til varðandi tekjur maka, að þær hafi ekki áhrif á tekjur hins aðilans. Við leggjum til að þessi skref verði öll stigin þann 1. janúar næstkomandi. Það er rétt hjá 1. framsögumanni þessa máls, að ef staða ríkissjóðs hefur einhvern tíma borið það að stíga þessi skref fyrir eldri borgara og öryrkja, þá er það nú. Staða ríkissjóðs er þannig að það ætti ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því að stíga þetta skref. Það mundi hins vegar auðvelda líf margra sem núna verða fyrir skerðingu að fá að njóta slíkra lagabóta.

Sannleikurinn er sennilega sá að þegar upp verður staðið er alls ekki víst að ríkissjóður þurfi að leggja svo mikið út með þessu frumvarpi. Væntanlega mun fólk reyna að afla sér tekna frekar en nú er ef 39% skerðingarreglan verður felld úr gildi og þar af leiðandi koma hærri tekjur inn í gegnum venjulegan tekjuskatt. Við erum svo sem ekki að leggja til að því kerfi verði breytt, hæstv. forseti.