135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

10. mál
[19:19]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því máli sem hér er hreyft. Ég er talsmaður þess að skerðingar í almannatryggingakerfinu verði skoðaðar allhressilega og að á sem flestum stöðum verði hægt að afnema þær. Ég er sömuleiðis fylgjandi því að einstaklingurinn fái að njóta sín og tekjur maka eigi ekki að skerða bætur hins. Ég tel að það sem hér er lagt til sé þarft innlegg í þá umræðu og vinnu sem nú er farin af stað með endurskoðun almenna tryggingakerfisins. Hér er margt sem ég get heils hugar tekið undir.

Ég vil sömuleiðis taka undir að það á ekki að mismuna fólki eftir því hvernig það sparar. Ég lít á þetta frumvarp sem þarft innlegg í þá umræðu sem væntanlega fer fram á haustþinginu og er sammála því að því leyti sem ég hef hér lýst.