135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[19:57]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir þessa leiðréttingu á orðum sínum, að leiðrétta þá ónákvæmni. Ég get tekið undir það að meiningin var góð eins og einhver sagði.

En það er samt svo að um 2.500 skattgreiðendur á Íslandi, sem eru í fullu starfi við að afla fjármagnstekna, sem eru í fullu starfi við að græða á mörkuðum eða hingað og þangað — það er þeirra fulla atvinna að gera út á fjármagnið, hlutabréf og annað slíkt — borga eingöngu 10%. Jafnræðið er ekki meira en það að annað fólk í atvinnurekstri, einyrkjar og aðrir, sjómenn, einyrkjar í útgerð og fleiri, þurfa að reikna sér laun. Þeir gera út á fisk en ekki peninga. Af hverju er þeim mismunað? Af hverju þurfa þeir að reikna sér laun? Af hverju mega þeir ekki borga 10% af aflaverðmætinu eða því sem inn kemur nettó? Hvaða skýring er á því? Hvar er jafnræðið? Hvar er stjórnarskráin?

Það gengur auðvitað ekki að menn geti gert út á fjármálamarkaði og borgað 10% á meðan menn gera út á höfuðatvinnuveg þjóðarinnar og borga 37%. Hvað vit er í því? Það er auðvitað ekkert vit í því. Það er brot á stjórnarskránni. Það er búið að koma upp gæluskattgreiðendum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið ofurumhyggju fyrir síðastliðin 16 ár og virðist ætla að gera það áfram.