135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:22]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú fyrst taka fram að ég hef ekki tekið mér í munn orðin „gæluskattgreiðendur Sjálfstæðisflokksins“ þannig að ég er ekki í góðri aðstöðu til að svara andsvari hv. þingmanns vegna þess að það beindist ekki nema að óverulegu leyti að því sem ég sagði.

Ég vil þó hins vegar spyrja hv. þingmann hvort það sem hún var hér að lesa upp, hv. þm. Ásta Möller, séu t.d. rök fyrir því að sveitarfélögin fái ekki hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.

Svo vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort henni finnst eðlilegt að einstæð móðir með tvö börn með 150 þús. kr. á mánuði og greiði 22 þús. kr. á mánuði í skatt? Gerir hv. þingmaður ráð fyrir því að hægt sé að komast af, fyrir einstæða móður með tvö börn á sínu framfæri með 150 þús. kr. í tekjur sem greiðir 22 þús. kr. í skatt á mánuði? Finnst hv. þingmanni þetta réttlátt skattkerfi sem þannig er byggt upp? Ég bara spyr.

Ég fullyrði að svo er ekki en ég bíð spenntur eftir að heyra hvað þingmaðurinn segir við því.