135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:58]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Atli Gíslason gat um í ræðu sinni er full ástæða til þess að ræða þessi skattamál ítarlega hér í sölum Alþingis, vegna þess að hér erum við að fjalla um gríðarlega mikið óréttlæti sem hefur fengið að þróast undanfarin 15, 20 ár undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Í fyrri ræðu minni í dag gat ég um mikilvægar upplýsingar sem koma fram í greinargerð með þessu frumvarpi en ég var svo heppinn að það skyldi koma einn ræðumaður í milli þannig að ég lenti ekki í þeim hremmingum að flytja tvær ræður í röð enda hefði mér væntanlega verið meinað það samanber úrskurð hér fyrr í dag. Þetta er ekki löng greinargerð en eftir því sem maður skoðar þessi atriði betur sér maður að þar er hvert atriðið á fætur öðru sem hrópar um það hversu mikið óréttlæti er í raun og veru í þessu skattkerfi. Ég ætla að leyfa mér að lesa smáklásúlu úr greinargerðinni en þar segir, með leyfi forseta:

„Afdrifaríkast fyrir lágtekjufólk hefur verið lækkun skattleysismarka á þessum tíma. Skattleysismörkin eru aðeins rétt tæplega 90 þús. kr. á mánuði en væru um 120 þús. kr. ef þau hefðu fylgt verðlagi og nærri 150 þús. kr. nú ef þau hefðu fylgt launavísitölu. Vegna þessarar þróunar hefur skattlagning á tekjur lægri en 150 þús. kr. á mánuði farið vaxandi. Fyrir ellilífeyrisþega sem greiddi ekki skatt af tekjum sínum við upphaf staðgreiðsluskattkerfisins þýðir lækkun skattleysismarkanna síðan þá minnkandi ráðstöfunartekjur eftir skatta og nú er svo komið að af sambærilegum tekjum og voru 1988 fara ein mánaðarlaun í skatta til ríkisins og lífeyrisþeginn er verr staddur sem því nemur.“

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að frá því að skattleysismörkin voru tekin upp hefur hagur þess fólks sem var í raun og veru með tekjur alveg við skattleysismörkin á sínum tíma, farið versnandi. Nú, 20 árum eftir að staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1987, greiðir það ein mánaðarlaun í viðbót til ríkisins í skatt miðað við það sem áður var, heil mánaðarlaun. Það munar um það fyrir fólk sem er með 150 þús. kr. á mánuði, það er ekki lítið hlutfall. Þetta er þróun sem við viljum vekja athygli á, þróun sem hefur fengið að viðgangast í samfélaginu og er hróplegt óréttlæti.

Ég trúi því að allir flokkar hér á hv. Alþingi, nema Sjálfstæðisflokkurinn, vilji meiri jöfnuð í skattkerfinu ég hef ekki trú á því vegna þess að þar tala gerðir Sjálfstæðisflokksins skýrustu máli. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með þennan málaflokk, hann hefur borið ábyrgð á þessari þróun en ég er sannfærður um að allir aðrir flokkar hér á hv. Alþingi vilja meiri jöfnuð í skattkerfinu. Þá hlýtur maður að spyrja sig þeirrar spurningar hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn fái að ráða ferðinni.

Ef það er svo, eins og mig grunar, að allir aðrir séu andvígir og ósáttir við þessa þróun og af því að hér í salnum er einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður félagsmálanefndar, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hver afstaða Samfylkingarinnar til þess frumvarps sem hér er lagt fram sé. Er Samfylkingin ekki sammála flutningsmönnum sem leggja til þessa breytingu á persónuafslættinum til þess að laga kjör þeirra sem eru með lægstu launin? Ég er sannfærður um að í kosningabaráttunni í vor hefur Samfylkingin líkt og Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð talað með sama hætti og þessir flokkar sammæltust um á síðasta kjörtímabili þegar þeir voru saman í stjórnarandstöðu. Ég hlýt því að velta því fyrir mér af hverju Sjálfstæðisflokkurinn eigi að ráða ferðinni í þessum málum ef það er rétt tilgáta hjá mér að hann sé í rauninni einn um að vilja þetta mikla óréttlæti og þetta mikla aukna gap á milli þeirra sem hafa háar tekjur og lágar tekjur. Mér fyndist mjög fróðlegt að fá viðbrögð frá hv. 2. þingmanni Norðvest., þeim ágæta þingmanni Samfylkingarinnar sem er hér í salnum, um hvaða afstöðu samfylkingarmenn hafa til þessa máls.

Ef það er svo að þeir séu, a.m.k. í hjarta sínu, sammála því frumvarpi sem hér er lagt fram sé ég ekki betur en að meirihlutastuðningur sé við það hér á hv. Alþingi og það ætti þá að eiga greiða leið í gegnum þingið og verða að lögum. Ég mundi a.m.k. vonast til þess að í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram og þeirra upplýsinga sem hafa komið fram í umræðunni, sem sýna fram á ójöfnuðinn, að jafnaðarmannaflokkur Íslands gæti gengið í lið með núverandi stjórnarandstöðuflokkunum og tryggt framgang þessa máls, það hlýtur að vera þannig. Ég hef enga trú á öðru og ég hef fulla trú á því að Samfylkingin vilji koma í þann leiðangur.

Nú á síðustu dögum höfum við upplifað miklar hræringar í stjórnmálunum í Reykjavíkurborg og þar er kominn nýr meiri hluti til valda þar sem allir flokkar, fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, hafa tekið höndum saman og myndað meiri hluta um félagshyggju og jöfnuð. Þar er t.d. eitt af fyrstu verkum nýs borgarstjóra, oddvita og leiðtoga Samfylkingarinnar í borgarstjórn, að taka á þessum lágu launum í samfélaginu, lágum launum borgarstarfsmanna, að tryggja það og ganga í það verk að bæta kjör þeirra sem eru með lægst laun, m.a. í skólum og leikskólum, (RR: Bíðum og sjáum.) að bæta kjör fólks í umönnunarstéttum. (RR: Bíðum og sjáum.) Já, en orð eru til alls fyrst, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, 12. þm. Suðvest., og þar er a.m.k. orðið alveg ljóst að menn eru að setja sér einhver markmið og borgarstjórinn, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn er þar að sjálfsögðu í fararbroddi og ég vænti þess að Samfylkingin hér á hv. Alþingi láti ekki sitt eftir liggja og komi til liðs við þetta brýna hagsmunamál þeirra sem lægst eru settir, taki höndum saman við flokkana í stjórnarandstöðunni og tryggi framgang þess. Þá erum við að sjálfsögðu að tryggja meiri jöfnuð í samfélaginu, réttlátara skattkerfi, einkum og sér í lagi til handa þeim sem eru með lægst kjör og hafa þurft að taka á sig hlutfallslega meiri hækkun skattbyrði á undanförnum árum en þeir sem hafa hæstar tekjur og Sjálfstæðisflokkurinn ber sérstaklega mikla umhyggju fyrir, eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni í ræðu hans áðan.