135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

16. mál
[21:28]
Hlusta

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Afstaða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar kemur mér engan veginn á óvart heldur var nákvæmlega eins og ég bjóst við að ræða hans yrði. Við erum á algerlega gagnstæðri skoðun í þessu máli. Meðan Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram tillögur um að draga úr ríkisrekstri og færa verkefni sem aðrir aðilar geta séð um til slíkra aðila vill hv. þingmaður og flokkur hans færa verkefni frá einkaaðilum og stækka ríkisstarfsemina. Það er ekkert sem kemur á óvart hér.

Hins vegar get ég engan veginn tekið undir með hv. þingmanni þegar hann talar um að greinargerðin með þingsályktunartillögunni lýsi á einhvern hátt einstrengingslegri afstöðu til ríkisrekstrar. Það er engan veginn svo. Hv. þingmaður notaði orð eins og opinber rekstur til bölvunar, að hann sé ósáttur við andann í þessari tillögu. Ég bendi á að í greinargerðinni er sagt, með leyfi forseta:

„Oft eru stofnanir settar á laggirnar til að sinna afmörkuðum verkefnum, sem síðan snúa upp á sig og aukast að umfangi með tilheyrandi auknum kostnaði. Til þessara stofnana eru ráðnir vel menntaðir og metnaðarfullir starfsmenn, með víðtæka yfirsýn á þeim vettvangi sem þeir starfa á. Af þeim sökum og oft einnig vegna kröfu um sértekjur viðkomandi stofnana sjá þeir ákveðin tækifæri í því að útvíkka starfsemi stofnunarinnar.“

Í þessu felst engan veginn fyrirlitning eða neitt í þá veru gagnvart opinberum starfsmönnum, enda má kannski segja að ég sé af þessari afurð opinberra starfsmanna þar sem ég hef starfað innan kerfisins árum saman.

Ég styð aftur á móti hv. þingmann þegar hann vísar í Siglingamálastofnun og það sem þar kemur fram. Nú hefur Vegagerðin útvistað flestum sínum verkefnum. Sér hann nokkuð athugavert við það að Siglingamálastofnun og álíka stofnanir útvisti sínum verkefnum til einkaaðila? Og er það nokkuð til bölvunar?