135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

16. mál
[21:32]
Hlusta

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um hæfni sérfræðinga í opinberu starfi. Ég tel einmitt að þekkingu þeirra mætti nýta mun víðar og slíka þekkingu mætti meira að segja nota til útrásarverkefna til þess að skapa gjaldeyristekjur fyrir Ísland eins og rætt hefur verið um á öðrum vettvangi.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ríkisrekstur á vissulega rétt á sér á ákveðnum sviðum í ákveðnum samfélagslegum verkefnum. En hann á ekki að vera nein trúarsetning, að allt sem snúi að samfélagslegum verkefnum eigi að vera í höndum ríkisstarfsmanna en fyrir það stendur hv. þingmaður ef ég skil rétt tillögur hans og málflutning.

Það er nefnilega þannig að blómlegt atvinnulíf er undirstaða velmegunar hér á landi. Við eigum að ýta undir atvinnulífið, rekstur úti í samfélaginu, frumkvæði aðila til þess að taka að sér ný verkefni því að samfélagsleg verkefni verða ekki rekin öðruvísi en með skatttekjum. Ef ríkisrekstur er á öllum sviðum verður lítið um skatttekjur frá fyrirtækjunum.

Varðandi það hvort einkafyrirtæki fari ekki bara í samkeppni við ríkisfyrirtæki og þá eigi að hrinda ríkisfyrirtækjunum út af markaði, þá taka samkeppnislög á slíkum aðstæðum. Þegar ríkisfyrirtæki eru komin í þá aðstöðu að ákveðinn hluti þeirra er í samkeppni við einkaaðila ber þeim að aðgreina reksturinn. Þeim ber að aðskilja hann fjárhagslega þannig að það sé ljóst að slíkur rekstur, sem er í samkeppni, sé ekki niðurgreiddur af ríkisfé, til þess að gæta jafnræðis í samfélaginu í þeim geira sem starfsemin á við um.