135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

16. mál
[21:36]
Hlusta

Þorvaldur Ingvarsson (S):

Herra forseti. Ég tek til máls til að lýsa ánægju minni með framkomna tillögu. Ég tel að full ástæða sé til að kanna hvort og á hvaða sviðum fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga eru í samkeppni við einkaaðila. Mig langar sérstaklega að nefna það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ástu Möller varðandi það atriði þegar rannsóknastofur úti í bæ voru nánast lagðar niður með því að Landspítali – háskólasjúkrahús ákvað á sínum tíma að taka yfir rekstur rannsóknastofu Heilsugæslunnar í Reykjavík og það án útboðs. Það var í raun og veru eignaupptaka við þær aðstæður.

Til þess að þessi rekstur megi ganga, þ.e. að hægt sé að bjóða út rekstur í auknum mæli, þurfum við náttúrlega að gera skattalagabreytingar þannig að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af þeirri þjónustu sem opinberir aðilar og aðrir bjóða út. Það er grunnforsenda.