135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. heilbrigðisráðherra að það er ástæða til að ræða þessi mál af yfirvegun og öfgalaust og með öðrum hætti en andstæðingar frumvarpsins hafa gert, bæði hér á þingi og í opinberri umræðu upp á síðkastið.

En það er auðvitað dálítið merkilegt að halda því fram, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason gerði hér, að okkur flutningsmönnum frumvarpsins hefði borist óvæntur liðsauki í málinu frá heilbrigðisráðherranum. Ég vil minna á að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur flutt þetta mál fjórum sinnum. Ég leyfi mér að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherranum fyrir að hlaupa ekki frá sinni eigin stefnu og flokks síns bara við það að hann er orðinn ráðherra. Ég veit ekki hvað hv. þm. Björn Valur Gíslason mundi gera ef hann yrði einhvern tíma ráðherra. Vonandi gerist það seint. En hugsanlega finnst honum eðlilegt að menn skipti bara um skoðun við það að fá slíka upphefð. En auðvitað lýsir það sjónarmið engu öðru en einhverri furðulegri tækifærismennsku. Sem betur fer sýnir hæstv. heilbrigðisráðherra skoðunum sínum og síns flokks þá hollustu og virðingu að skipta ekki um skoðun þrátt fyrir að staða hans hér innan þings og ríkisstjórnar breytist. Ég minni hv. þingmann á að það segir í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því í mars á þessu ári, með leyfi forseta:

„Landsfundur leggur áherslu á að einkarétti ríkisins á verslun með áfengi verði aflétt. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum.“

Og ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra sýna að (Forseti hringir.) hann er að framfylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann nýtur fulls trausts til þess og það er fáránlegt í því sambandi að tala um dómgreindarskort (Forseti hringir.) eða embættisafglöp.