135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það var talað um að mikilvægt væri að ræða þetta málefnalega. Vissulega er búið að tala marga daga um þetta margumtalaða frumvarp í þingsölum þannig að mér finnst kannski óþarfi að bæta mörgum klukkutímum við í þeim efnum. Ég get þó sagt það að ég hef velt þessum málum mikið fyrir mér og komist að þeirri niðurstöðu, að ég tel alveg án allra öfga, að vera andvíg frumvarpinu.

Mig langar til að nefna annað við hæstv. heilbrigðisráðherra — fyrst við erum svona stálheppin að hafa hann hérna á bekknum, og er hann reyndar nokkuð einmana — og það varðar hinar gríðarlegu vanskilaskuldir Landspítalans, 1,1 milljarð. Það er verið að henda út um gluggann tugum milljóna króna sem væri hægt að komast hjá vegna þess að ríkissjóður á fullt af peningum. Það eru bullandi peningar í ríkissjóði og það er ekki reynt að standa í skilum. Hvers lags fordæmi er sýnt með þessu móti? Svo bættist það nú við í morgun í heilbrigðisnefnd að Heilsugæslan í Reykjavík skuldar birgjum 320 millj. Það er ekkert verið að hugsa um að reyna að borga það upp. Mér finnst að heilbrigðisráðherra sé eitthvað lítið að reyna að standa sig í sínu mikla og mikilvæga embætti þegar hann tekur ekki á þessu.

Hann skipar margar nefndir og kannski er hann að vinna sér inn tíma með því, ég veit það ekki. (Gripið fram í.) Ég vil bara segja að mér finnst slæleg frammistaða hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórninni að taka ekki á þessum málum, borga ekki upp þessi vanskil (Gripið fram í.) í staðinn fyrir að henda öllum þessum peningum út um gluggann.