135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[14:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta hefur verið nokkuð athyglisvert. Ég verð að segja það út af ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að á dauða mínum átti ég von en ekki að fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins færi að skamma mig fyrir rekstrarvanda stofnana á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Ég vil vekja athygli á því að á undanförnum árum og alla þá tíð sem ráðherra Framsóknarflokksins fór með það ráðuneyti þá var nú ekki eins og menn væru að ná jöfnu, eða að menn væru að ná endum saman í rekstrinum.

Heldur hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir virkilega að þetta sé nýtt mál? Ég vek athygli á því að hér er verið að fylgja eftir fjárlögum sem fyrri ríkisstjórn lagði fram og ég held því að hv. þingmaður ætti aðeins að skoða sinn gang áður en hún fer að ásaka þann sem hér stendur fyrir að standa ekki þá plikt.

Hallinn á ríkisspítölunum frá því um 2000 hefur verið frá 6,5% upp í 15,6%. Það er mín skoðun, virðulegur forseti, að okkur veiti ekki af því að fara yfir það ásamt fleiru sem snýr að rekstri heilbrigðisráðuneytisins. Það er gott að vita af stuðningi frá þingmönnum Framsóknarflokksins hvað það varðar.

Ég gleðst yfir því, virðulegur forseti, að yfirlýsingar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hér úr þessum stól eru orðnar aðeins vægari, en hins vegar held ég að það ætti að kalla saman þingflokksfund hjá vinstri grænum vegna þess að nú allt í einu eru þeir farnir að tala gegn auknu aðgengi en fyrr í umræðunni hafa þeir talað fyrir því. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði fyrir nokkrum dögum varðandi spurningu um hvort fjölgun útsölustaða ÁTVR væri af hinu illa, með leyfi virðulegs forseta: „Þá tel ég svo ekki vera.“

Hv. þm. Þuríður Backman fór yfir það, virðulegi forseti, að hún vildi sjá fleiri útsölustaði ÁTVR (Gripið fram í.) þannig að vinstri grænir vilja aukið aðgengi. (Gripið fram í.) Forvarnamálið er hins vegar stórmál, það (Forseti hringir.) er eilífðarmál, en hins vegar er það alveg nýtt, þó að Frjálslyndi flokkurinn sé á móti þessu frumvarpi, þá er það alveg nýtt. (Forseti hringir.) að vinstri grænir séu á móti auknu aðgengi, þeir hafa talað fyrir því hvað eftir annað hér í þingsal.