135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:17]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir þessa þingsályktunartillögu. Ég held að hún sé af hinu góða því að það er mjög brýnt að ræða skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Sú breyting hefur orðið á skattheimtu hjá fólki sem hefur borgað útsvarstekjur í gegnum tíðina að stór hópur og stækkandi og er farinn að borga fjármagnstekjuskatt. Það er því ekkert óeðlilegt að sveitarfélögin í landinu fái hlut af fjármagnstekjuskattinum til sín en hann renni ekki aðeins til ríkisins. Það er auðvitað brýnt mál. Ég hélt að vinna hefði verið í gangi um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga en það hefur bersýnilega ekkert komið út úr því starfi enn þá eða ekkert orðið af því. Ég hélt að það hefði verið ákveðið í stjórnartíð fyrri ríkisstjórnar.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga er náttúrlega alltaf að breytast. Grunnskólarnir voru færðir undir sveitarfélögin fyrir stuttu síðan til þess að gera og þá var talið að sveitarfélögin hefðu fengið ríflega frá ríkinu, það hefði verið borð fyrir báru í þeim efnum og þau hefðu fengið milljarð umfram það sem þau þyrftu. Síðan hefur ríkið stanslaust lagt skyldur á sveitarfélögin um að auka þjónustu við börn á grunnskólastiginu, það er ýmiss konar sérfræðiþjónusta sem t.d. lesblind börn og fötluð börn hafa þurft að fá og þeim hefur ekki veitt af að fá aukna þjónustu frá grunnskólunum en allt kostar þetta peninga sem sveitarfélögin hafa svo þurft að borga.

Mér dettur líka í hug breyting á hafnalögum sem hefur haft afleiðingar á tekjur sveitarfélaga og hafnarsjóða. Flestar hafnir í landinu, að undanskildum fjórum stærstu höfnum landsins sem reknar eru með hagnaði, eiga við mjög mikla erfiðleika að etja. Í flestum sveitarfélögum eru þær reknar sem sérsjóður, þ.e. hafnarsjóður, svo þetta mun auðvitað íþyngja sveitarfélögum vegna þorskniðurskurðarins og minni tekna fyrir sveitarfélögin. Það þarf því að endurskoða hafnalögin að hluta og hvernig staðið er að núgildandi hafnalögum.

Eitt í viðbót og það er þegar sveitarfélög selja eignir en þá standa þau kannski í fyrsta skipti frammi fyrir því núna, eins og sveitarfélög á Suðurnesjum sem hafa verið að selja eign sína í Hitaveitu Suðurnesja, að verða að borga fjármagnstekjuskatt. Það mun auðvitað verða þessum sveitarfélögum íþyngjandi að þurfa að borga fjármagnstekjuskatt en í samanburði við önnur sveitarfélög á landinu sem hafa kannski ekki sömu stöðu standa þau vel. Eftir sem áður held ég að ríkið þurfi að skoða þann þátt sem snýr að sveitarfélögum sem hafa verið að selja hlut sinn eins og sveitarfélög á Suðurnesjum í Hitaveitu Suðurnesja, að þurfa að borga fjármagnstekjuskatt og það eru engar smáupphæðir. Það mun ekki gera þessum sveitarfélögum auðveldara fyrir, þrátt fyrir að þau eigi í rauninni við rekstrarerfiðleika að etja við að láta enda ná saman frá degi til dags fyrir utan auðvitað þær tekjur sem þau hafa af sölu eigna. En væntanlega hugsa öll sveitarfélögin þannig að þau komi að því í einhvers konar uppbyggingu innan sveitarfélaganna og veitir kannski ekki af í sumum tilfellum.