135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:22]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft máli sem margsinnis hefur verið til umræðu í sölum þingsins og hjá sveitarstjórnunum, innan Sambands íslenskra sveitarfélaga, innan SSH og víðar. Það sem hv. þm. Magnús Stefánsson dregur fram í greinargerðinni er að tekjur sumra sveitarfélaga hafi minnkað en önnur staðið í stað samanborið við aukinn rekstrarkostnað undanfarin ár en svo bætir hann við að þetta eigi fyrst og fremst við um sveitarfélög á landsbyggðinni. Ég get svo sannarlega tekið undir það að þetta er rétt hvað landsbyggðina varðar en ef við horfum hins vegar á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er þetta ekki raunin. Sveitarfélögin þar hafa notið þess góðæris sem verið hefur í landinu og tekjur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að aukast mjög mikið.

Ég hef reyndar ekki gert mjög nákvæma úttekt á því en ég leit yfir ársreikninga ákveðins sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu nokkur ár aftur í tímann og ég get t.d. ekki séð þegar kemur að grunnskólanum að það sé aukinn kostnaður við hann sem hlutfall af útsvarstekjum, svo ég tali ekki um sem hlutfall af heildartekjum. Þá er auðvitað tekið inn í miklu fleira en útsvarstekjurnar en sem hlutfall af útsvarstekjum, sem er kannski eðlilegast að horfa á, hefur það hlutfall ekki verið að hækka. Mér sýnist jafnvel að það hafi lækkað hjá sumum sveitarfélögum.

Ef við horfum á afkomu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sjáum við að öll sveitarfélögin skila rekstrarafgangi nema eitt sveitarfélag en það er að vísu svolítið merkilegt að það skuli vera stærsta sveitarfélagið. Ef við skoðum þetta hins vegar úti á landi og berum saman hvert er hlutfall t.d. kostnaðar við grunnskóla þar í samanburði við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þá sýnist mér fljótt á litið að það sé kannski á milli 40 og 50% á höfuðborgarsvæðinu ef við tökum fræðslumálin sem heild en úti á landsbyggðinni má finna sveitarfélög þar sem það er jafnvel 80%. Þess vegna er mjög rangt að tala um sveitarfélög sem eitt mengi því aðstaðan er mjög misjöfn. Þess vegna getur maður sett sig í spor sveitarfélaga úti á landi og skilið að þau þurfa á miklu meiri tekjum að halda vegna grunnskólanna en það á auðvitað ekki við um sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, enda sjáum við það líka á annarri eyðslu þessara sveitarfélaga, og er þá ekkert undanskilið, að þau hafa ekki beint verið að spara við sig hvorki í rekstri né uppbyggingu, það er alveg óhætt að segja það, og hafa aukið mikið fjármagn til alls kyns mannvirkjagerðar. Við getum líka séð það í hendi okkar því að allar þær byggingar sem menn hafa verið að reisa eru mjög fínar og flottar byggingar, t.d. íþróttamannvirki og svo mætti lengi telja. Þetta sjáum við ekki úti á landi, þar sjáum við að sveitarfélög hafa ekki efni á að fara í nauðsynlegustu mannvirkjaframkvæmdir. Þetta er því mjög ólík staða en það skal þó tekið fram að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kemur auðvitað talsvert til móts við þessa aðila.

En talandi um að sveitarfélögin fái hlutfall af fjármagnstekjuskattinum þá hlýtur næsta spurning að vera sú: Hvernig mun hann skiptast niður á sveitarfélögin? Ef maður dregur fram hvaða sveitarfélög hafa það best, mundu þau hugsanlega fá langmest af fjármagnstekjuskattinum og sveitarfélögin sem hafa það verst miklu minna af þeim skatti? Auðvitað mætti hugsa sér að taka enn þá til þess ráðs að nota jöfnunarsjóðinn, hann er tæki sem mætti nýta í þessu samhengi, en ef við horfum hins vegar á hvar þessar tekjur falla þá falla fjármagnstekjurnar helst til hjá efnuðustu sveitarfélögunum. Spurningin er því ef menn vilja bakka upp eða styrkja veikustu sveitarfélögin með hvaða hætti á að gera það.

Ég get hins vegar tekið undir að það er algerlega óþolandi að sumir aðilar borgi eingöngu fjármagnstekjuskatt og taki þar af leiðandi ekki þátt í rekstri sveitarfélaga sinna. Þess vegna hef ég verið fylgjandi því að taka upp reiknað endurgjald varðandi þessa aðila. Það gerist auðvitað í sumum tilvikum í gegnum rekstur hjá þeim, ef menn eru í slíku, t.d. borga þeir sem hafa stofnað hlutafélag utan um trilluna sína eða eitthvað slíkt reiknað endurgjald í gegnum reksturinn. En þá er ég að tala um hina sem hafa eingöngu fjármagnstekjur og eru ekki í slíkum rekstri.

Hins vegar megum við ekki gleyma því heldur þegar við horfum á þennan fjölda að þá minnist ég þess að fyrir tveimur árum síðan þegar talað var um að þetta væru 5.000 manns þá sýndist mér að hátt í helmingur þeirra hefðu mjög lágar fjármagnstekjur, þetta væru aðilar sem hefði kannski keypt skammtinn sinn í bönkunum á sínum tíma eða áttu fasteignir hér heima sem þeir leigðu út en störfuðu erlendis. Þetta voru oft og tíðum námsmenn eða aðilar sem störfuðu erlendis og leigðu fasteign sína heima. Þetta er svolítið flóknara en svo að hægt sé að segja þetta um alla. En þeir aðilar sem búa hér á landi og njóta þjónustu sveitarfélaganna eiga að sjálfsögðu að taka þátt í þeim rekstri eins og aðrir í sveitarfélaginu. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga.

Ég held líka að hugmyndin um að það sé kannski kominn tími til að horfa á sveitarfélög sem tvo, þrjá ólíka hópa, sveitarfélög A og B eða eitthvað slíkt, sé eitthvað sem eigi að geta nýst okkur í þessu, þ.e. að við tökum út þau sveitarfélög sem hafa það langverst og að horft verði til þeirra. Sveitarfélög sem hafa haft minnkandi tekjur á undanförnum árum, sveitarfélög þar sem orðið hefur fólksfækkun eru auðvitað sveitarfélög sem hafa það mjög erfitt. Ég held að það sé kominn tími til þess, og ég veit að það er vilji til þess m.a. innan Sambands íslenskra sveitarfélaga, að horfa sérstaklega til þessara sveitarfélaga og fara jafnvel í einhvers konar flokkun af þessu tagi. Ég skal verða fyrsti maður til þess að taka undir það að skoðuð verði sérstaklega afkoma þeirra sveitarfélaga sem lenda í lakari flokknum, ef svo má segja, með það að markmiði að veita þeim sérstakan stuðning. Það getur líka verið svo að það sé einfaldlega rétt að ríkið sjái um ákveðna hluti hjá þessum sveitarfélögum sem það sér ekki um annars staðar.

Talað hefur verið um yfirfærslu á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Það er ekkert víst að við eigum þá alltaf að horfa til sveitarfélaganna sem einnar heildar, kannski getur verið að það eigi ekki að gera slíkt í öllum tilvikum en það má ekki verða til þess að stoppa það að 95% sveitarfélaganna taki að sér ákveðin verkefni þó svo 5 eða 10% sveitarfélaganna ráði ekki við þau. Ég held að það gæti verið mjög gagnlegt í þessari umræðu og enda þótt það sé spurning um aðferðafræði, hvort horfa eigi á fjármagnstekjuskattinn sérstaklega o.s.frv., þá held ég að allir þingmenn geti verið sammála um að staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn svo ekki sé meira sagt og við getum tekið undir það að horfa verði sérstaklega til þeirra sveitarfélaga sem veikast standa.