135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara örstutt vegna nokkurra atriða sem komu fram í ræðu hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar. Hann nefnir sérstaklega tekjuaukningu á höfuðborgarsvæðinu. Það er rétt að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið nokkra tekjuaukningu á undanförnum árum vegna, má segja, þeirrar þróunar sem hefur verið í samfélaginu almennt og ríkið hefur notið góðs af líka. En menn hljóta að velta fyrir sér hvort það sé ekki allt í lagi, hvort að það að einhver sveitarfélög hér njóti sérstaklega þess núna séu rök fyrir því að þá sé allt í lagi að velta yfir á þau sveitarfélög verkefnum sem þau fá ekki tekjustofna fyrir. Er sanngirni í því? Ég tel svo ekki vera.

Ekki má heldur gleyma því að það koma líka þau ár að sveitarfélögin, sérstaklega fjölmenn, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, taka á sig aukin verkefni þegar illa árar í samfélaginu og taka á sig meiri kostnað en gengur og gerist, t.d. í félagsþjónustu. Það gengur kannski svolítið í bylgjum, líka hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu, og það er allt í lagi að taka tillit til þess.

Varðandi hlutfallið í fjármagnstekjuskatti sem þingmaðurinn nefndi hérna líka held ég að það hafi ævinlega komið fram hjá þeim sem hafa verið að tjá sig um þetta málefni, m.a. af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga, að aðferðafræðin við að deila út þeim tekjum sem þannig færu til sveitarfélaga væri sjálfstætt úrlausnarefni og þær hlytu að fara í gegnum jöfnunarsjóðinn, alveg eins og útsvarið gerir í dag. Það er að sjálfsögðu verið að nota jöfnunarsjóðinn, inn í hann fer hlutfall af útsvarstekjunum og því er síðan deilt út til sveitarfélaganna eftir sérstökum aðferðum. Þannig yrði það að sjálfsögðu með fjármagnstekjuskattinn og það þarf ekki að mikla það fyrir sér.

Síðan vil ég bara rétt að lokum segja, af því að þingmaðurinn nefndi sérstaklega sveitarfélög sem standa höllustum fæti, að ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að vera óhræddir við að nýta sér hluti eins og beina byggðastyrki í staðinn (Forseti hringir.) fyrir að fara alltaf eins og köttur í kringum heitan graut og það megi aldrei kalla hlutina sínum réttu nöfnum. (Forseti hringir.) Við eigum að ræða hluti eins og beina byggðastyrki eins og hægt er að gera, m.a. á Evrópska efnahagssvæðinu.