135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:52]
Hlusta

Flm. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þessa tillögu sem er, eins og síðasti ræðumaður sagði, frekar einföld í sjálfu sér en fjallar um stórt mál. Okkur fannst nauðsynlegt að flytja hana þannig að þingið gæti fjallað um þessi mál og ekki síst, sem ég nefndi í framsögu minni, þær aðstæður sem komnar eru upp, sérstaklega úti á landsbyggðinni, eftir að ákvörðun var tekin um að draga verulega úr þorskveiðum sem mun auðvitað hafa áhrif á mörg sveitarfélög.

Í þessari umræðu hefur margt komið fram eins og gefur að skilja í umræðu um þetta mál. Eitt af því sem t.d. kom fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni var hvort ríki og sveitarfélög hefðu ekki farið í gegnum viðræður um þessi mál. Það hefur oft verið gert og síðast komust ríki og sveitarfélög fyrir líklega einu og hálfu ári að niðurstöðu um þessi mál.

Eins og fram hefur komið eru þetta málefni sem verða eflaust alltaf til umræðu reglubundið, sérstaklega þar sem hér er um að ræða þessi tvö stjórnsýslustig, ríkið og sveitarfélögin. Það er bara eðli málsins að þessi umræða verður alltaf uppi öðru hvoru.

Ég ætla ekki að teygja á þessari umræðu, virðulegi forseti, en vil rétt í lokin vekja athygli á því að það var athyglisvert að heyra í hv. þm. Ellerti B. Schram. Ég þakka honum fyrir hans jákvæðu orð í garð tillögunnar en þar kristallast auðvitað það að stjórnarflokkarnir eru ekki alveg í takt í þessu máli. Eins og ég sagði í framsögu minni hefur hæstv. félagsmálaráðherra talað jákvætt í þá átt að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Ég hef heyrt ýmsa hv. þingmenn Samfylkingarinnar segja það líka en af hálfu sjálfstæðismanna hefur hæstv. fjármálaráðherra verið þessu algjörlega andsnúinn. Ég óska stjórnarflokkunum alls hins besta við að komast að niðurstöðu um þetta mál og vona að það verði fyrst og fremst í þágu sveitarfélaganna. Mér sýnist vera töluvert verk óunnið á þeim vettvangi hjá stjórnarflokkunum við að komast að niðurstöðu í málinu. Hér er mikið í húfi fyrir sveitarfélögin og þess vegna óska ég stjórnarflokkunum alls góðs við að komast að góðri niðurstöðu um þessi mál.