135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

32. mál
[14:56]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu. Tillagan er á þskj. 32 og er 32. mál þingsins. Þetta er í fjórða sinn sem ég mæli fyrir þessu þingmáli og í annað sinn undir heitinu hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu. Áður hafði ég flutt málið í tvígang ásamt fjölda annarra þingmanna sem meðflutningsmönnum þar sem heiti tillögunnar var þingsályktun um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu. Þetta er því mismunandi heiti á sama málinu.

Í tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi nefnd til að undirbúa að hreyfing geti orðið valkostur í heilbrigðisþjónustunni, sem lækning og í fyrirbyggjandi tilgangi, þannig að læknar geti vísað á hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum á sama hátt og vísað er á lyf eða læknisaðgerðir. Nefndin kanni kostnað og ávinning af fyrirkomulaginu. Hún meti hvort gera þurfi breytingar á lögum til að ná þessu markmiði og hvort setja þurfi á laggirnar nám eða endurmenntun fyrir þá sem hafa umsjón með hreyfingar-, lífsstíls- eða þjálfunaráætlunum. Loks er lagt til í þingmálinu hvernig nefnd þessi skuli skipuð.

Þessi leið sem sú sem hér stendur leggur til að tekin verði upp hér á landi hefur verið notuð á Norðurlöndunum frá því 2001. Þar hafa hreyfiseðlar verið í gangi og hefur notkun þeirra aukist mjög mikið ár frá ári. Menn sáu fram á að á tímum síhækkandi útgjalda í heilbrigðiskerfinu eykst lyfjanotkun, ný lyf verða dýrari, aðgerðum fjölgar o.s.frv. og þá þarf að horfa til nýrra leiða. Þar hafa þeir tekið upp þá leið að leiðbeina fólki með því að auka hreyfingu, leiðbeina um mataræði o.s.frv.

Hreyfiseðlarnir hafa heitið ýmsum nöfnum á Norðurlöndunum, t.d. í Noregi eftir því hvernig seðillinn er á litinn, þar eru venjulegir lyfseðlar kallaðir bláir lyfseðlar og hreyfiseðlarnir grænir lyfseðlar af því að þeir eru grænir á litinn. Menn voru sammála um að breyta þyrfti þeirri hugsun að eina lækningin við kvillum væru lyf eða aðgerðir og menn hafa komist að raun um að margir sjúklingar geta breytt heilsufari sínu sjálfir með breyttu líferni, mataræði og hreyfingu.

Þar sem ég hef talað fyrir þessu máli í þrígang áður ætla ég ekki að rekja greinargerðina sem menn geta kynnt sér í þingskjalinu en hún er ítarleg og bendir m.a. á hina ýmsu lífstílssjúkdóma sem hafa aukist mjög eins og offita, hjarta- og æðasjúkdómar, hár blóðþrýstingur, sykursýki 2, sem er áunnin sykursýki, og ýmsir aðrir sjúkdómar svo sem stoðkerfissjúkdómar eða vandamál sem hafa aukist með aukinni velmegun. Því hefur verið gripið til þeirrar leiðar að sporna við þeirri þróun sem hefur orðið í þessum efnum og vísað á hreyfingu og hollustu.

Ég tel mjög mikilvægt að það verði litið til Norðurlandanna. Nú hefur þessi leið verið farin þar í sjö, átta ár og einmitt þessa dagana komu fréttir af því að Norðurlandabúar hafi verið að gera úttekt á árangri þessarar leiðar hjá sér. Fyrir þremur dögum var t.d. frétt í Jyllandsposten um úttekt á þessari aðferð í Danmörku þar sem sagt er að hreyfiseðlar séu stórkostlega árangursríkir eða „Motion på recept er en success“. Síðan segir að það hafi komið í ljós við úttekt á þessari aðferð eða þessari leið, að vísa á hreyfingu og matarleiðbeiningar, að þetta verkefni hafi náð gífurlega miklum árangri og nú sé t.d. sveitarfélagið Kaupmannahöfn að endurskoða og byggja upp og bæta þetta verkefni og loks er frétt um það hversu árangursrík þessi leið hefur verið.

Í tillögu þeirri sem ég mæli fyrir er ekki talað sérstaklega um að þetta auki útgjöld samfélagsins, það er ekki talað um að heilbrigðiskerfið greiði fyrir þessa leið. Að sjálfsögðu verður læknum greitt fyrir að fylla út og gefa út slíkan hreyfiseðil eins og fyrir lyfseðla en að öðru leyti ekki nema að e.t.v. væri hægt að skoða það hjá þeim sem eru illa staddir fjárhagslega eða eru öryrkjar eða láglaunafólk að þeir fái einhvern styrk. Aftur á móti hefur verið greitt með þessu kerfi í Danmörku og það er eitt af því sem nefndin þyrfti að skoða, hvernig við mundum standa að slíku.

Ég tala líka um það í tillögunni að skoða þurfi hvort breyta þurfi lögum. Í Noregi var gerð lagabreyting 2003 um þessa leið í heilbrigðisþjónustunni, þar var ákveðið að breyta lögum til að taka þetta inn í heilbrigðisþjónustuna. Í Danmörku, sem ég var að vísa til að nýbúið væri að gera úttekt á árangri af þessari leið, hefur verið boðið upp á þetta alls staðar frá 2002. Danir hafa líka notað þetta í fyrirbyggjandi tilgangi þar sem þeir hafa boðið upp á hreyfiseðla í forvarnaskyni t.d. fyrir áhættuhópa, þ.e. þá sem koma úr fjölskyldum sem eru sérstaklega í áhættu fyrir ákveðna sjúkdóma, og jafnvel fyrir börn sem eru of þung. Danir hafa því mikla reynslu og það hafa Svíar líka, ég rakst einmitt á frétt um úttekt á sænska kerfinu þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé gífurlega árangursrík leið og leggja mikla áherslu á að henni verði haldið áfram.

Heilbrigðis- og trygginganefnd fór fyrir nokkrum árum í heimsókn á Reykjalund þar sem hafa verið aðgerðir og þjálfun vegna offitu. Þar kom til umræðu hversu mikilvægt væri að fara þessa leið og sama má segja um alla þá sem hafa fjallað um þetta efni í heilbrigðiskerfinu, Lýðheilsustöð o.fl. Meðal annars setti forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili, Halldór Ásgrímsson, nefnd á laggirnar til að vinna að auknu heilbrigði og sá Þorgrímur Þráinsson um að vinna þá skýrslu fyrir forsætisráðuneytið. Þar var einmitt komið inn á mikilvægi þess að fara svipaða leið og Norðurlöndin hafa verið að fara ásamt ýmsum fleiri leiðum. Þessi leið, að koma á hreyfiseðlum í heilbrigðiskerfinu, hefur því vissulega verið til umræðu.

Veturinn 2004–2005 gerðu nemendur í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun við Endurmenntun Háskóla Íslands lokaverkefni um hreyfingu sem meðferð í heilbrigðisþjónustu. Verkefnið var kallað „Hreyfiseðill“ – ávísun á hreyfingu. Þessu verkefni lauk með skýrslu um það hvernig hægt væri að koma á tilraunaverkefni hér á landi í þessu skyni. Þetta var gert eftir að þetta þingmál hafði verið flutt a.m.k. einu sinni, ef ekki tvisvar í þinginu. Með tillögunni fylgir sem fylgiskjal stutt lýsing á fyrrnefndu verkefni þessara nemenda við Háskóla Íslands.

Í kjölfar þessa verkefnis var ákveðið að taka upp tilraunaverkefni við Heilsugæsluna í Garðabæ og hefur verið tilraun í þá veru að vera með hreyfiseðla þar og hefur það gefist vel eftir því sem ég best veit. Í ljósi þess að þegar er hafin tilraunastarfsemi í þá veru hér á landi er mjög mikilvægt að farið verði í þá vinnu sem lögð er til í þessu þingmáli, að hæstv. heilbrigðisráðherra setji í gang vinnu til að koma á þessari leið, þeim valkosti í heilbrigðisþjónustunni sem hreyfiseðlarnir eru. Það er óþarfi að finna upp hjólið eins og oft er sagt, menn geta kynnt sér árangurinn annars staðar á Norðurlöndum sem lýst er í fréttaflutningi í norrænum fjölmiðlum þessa dagana þannig að við getum lært mikið af þeim.

Sagt hefur verið frá ýmsum tilraunum og rannsóknum sem gerðar hafa verið í þessa veru þar sem fólk sem talið hefur verið að þyrfti að fara í erfiðar aðgerðir, jafnvel bæklunaraðgerðir, hefur fyrst fengið hreyfiseðil og verið sett í hreyfingar- og mataræðismeðferð og hefur síðan jafnvel ekki þurft á læknisaðgerðinni að halda. Ég minni á að allt inngrip í líkamann getur verið hættulegt og að það er líka mjög mikilvægt fyrir einstaklinginn að geta ráðist í það sjálfur að ná heilsu þegar hinir ýmsu kvillar sækja á hann.

Virðulegi forseti. Ég rek efni þessarar tillögu ekkert nánar. Í þingskjalinu koma fram ýmsar ítarlegri upplýsingar um málið. Þó vil ég geta þess að á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir þessa leið. Við erum með fjöldann allan af sundlaugum, það er t.d. varla nokkurs staðar í nágrannalöndum okkar boðið upp á fleiri sundlaugar en hér. Hér er mjög góð íþróttaaðstaða og líkamsræktarstöðvar og mikið af færu fólki, fagfólki sem getur tekið að sér að veita þá þjónustu sem þarf að veita þegar fólk fær hreyfiseðil. Við ættum því að vera mjög vel í stakk búin til að koma þessum valkosti á í heilbrigðisþjónustu okkar, koma á hreyfiseðlum á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ég hvet til þess að hv. heilbrigðisnefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái málið til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu, taki málið fljótt fyrir og sendi það til umsagnar og afgreiði það úr nefndinni, því að ég veit að sá hæstv. heilbrigðisráðherra sem nú situr hefur mikinn áhuga á að beita hinum ýmsu forvarnaaðgerðum, m.a. er hann mikill áhugamaður um aukið heilbrigði, þannig að ég efast ekki um að hann taki vel í það að koma á þeim valkosti sem hér er lagður til.

Ég legg því til að málið fari að lokinni fyrri umræðu til heilbrigðis- og trygginganefndar.