135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

iðnaðarmálagjald.

11. mál
[15:34]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um iðnaðarmálagjald með síðari breytingum. Frumvarpið er að finna á þskj. 11. Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðarmálagjald verði fellt niður. Það var tekið upp á sínum tíma árið 1975 að frumkvæði Félags íslenskra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Sambands íslenskra samvinnufélaga. Mér sýnist að þau lög brjóti í bága við stjórnarskrána á tvennan ef ekki þrennan hátt og mun ég fara yfir það hér.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Lög sem kveða á um greiðslu úr ríkissjóði, önnur en fjárlög eða fjáraukalög, hljóta því að vera í andstöðu við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og eru því ógild.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um iðnaðarmálagjald, sem hér er lagt til að verði fellt niður, stendur: „Tekjur af iðnaðarmálagjaldi renna til Samtaka iðnaðarins.“ Hér er sem sagt fjárveiting til Samtaka iðnaðarins ár fyrir ár um ókomna framtíð. Hér eru bein fyrirmæli til framkvæmdarvaldsins um að þessa fjármuni skuli greiða úr ríkissjóði þrátt fyrir bann stjórnarskrárinnar þar um. Þetta tel ég vera nægilega ástæðu til þess að fella þessi lög úr gildi.

Lagasafnið hefur reyndar að geyma fjölmörg lög af þessu tagi. Nefna má búnaðargjaldið, sem við ræðum reyndar undir 12. lið dagskrárinnar, en það gjald rennur aðallega til stéttarsamtaka bænda, iðnaðarmálagjaldið, sem við ræðum hér, sem rennur til Samtaka iðnaðarins, fiskiræktargjald sem rennur til Fiskiræktarsjóðs og höfundaréttargjöld, m.a. 1% af verði tölvu, og STEF-gjöld, sem renna til einstaklinga — tónskálda, merkilegt nokk.

Með þessum hætti er ríkið notað til að innheimta skatt sem rennur til einstaklinga eða félaga þeirra. Það brýtur það ákvæði stjórnarskrárinnar að ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði nema með fjárlögum.

Þetta gjald, iðnaðarmálagjald, og þau gjöld sem ég nefndi hér áðan, eru auk þess skattur. Gjaldstofninn er sá sami og gjaldstofn virðisaukaskatts og ríkissjóður innheimtir gjaldið og leggur það á. Það fær meira að segja 0,5% í eins konar innheimtuþóknun.

Herra forseti. Þegar litið er á lög um iðnaðarmálagjald virðist sem hópur manna, stjórnir Félags íslenskra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Sambands íslenskra samvinnufélaga, hafi fengið löggjafann til þess að innheimta fyrir sig félagsgjöld og noti þannig ægivald ríkisins með heimild til að sekta og fangelsa til að ná fénu af öllum iðnfyrirtækjum og gera þau um leið félagsbundin.

Þessi lög, og ég mun sýna fram á það, brjóta sennilega ákvæði stjórnarskrárinnar bæði um félaga- og tjáningarfrelsi. Félagafrelsið er samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að engan má skylda til aðildar að félagi nema sérstakar aðstæður krefji. Það gjald sem hér um ræðir, sem menn verða að borga til félags, leiðir að sjálfsögðu til þess að menn verða að ganga í félagið ella njóta þeir ekki þeirra réttinda sem félagsaðildin veitir en þurfa eftir sem áður að borga. Skoðanafrelsi er nátengt félagafrelsinu því að óheimilt er að neyða menn til að hafa tilteknar skoðanir eða losa sig við aðrar. Kveðið er á um það í 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Ekki reynir oft á skoðanafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar en hér reynir á það. Menn eru skyldaðir til að greiða til félags sem hefur uppi ákveðinn pólitískan málflutning sem getur verið ágætur í sjálfu sér. En það getur verið að sá sem greiðir til félagsins sé ekki sama sinnis og hann er látinn borga áróður og annað því tengt. Sem dæmi má nefna að Samtök iðnaðarins hafa haft uppi mjög ákveðnar skoðanir um ýmis pólitísk álitamál eins og aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar. Það eru í sjálfu sér ágætissjónarmið og eiga rétt á sér. Hins vegar er mönnum sem hafa öndverðar skoðanir og stýra fyrirtækjum gert að greiða til þessara samtaka og borga fyrir áróðurinn, gegn eigin sannfæringu. Þeir aðilar telja kannski að aðild að Evrópusambandinu sé ekki af hinu góða og upptaka evrunnar sé ekki góð fyrir þeirra eigin fyrirtæki, en þeim er gert að greiða til Samtaka iðnaðarins þó að þeir séu á öndverðri skoðun.

Hæstiréttur hefur í tvígang fjallað um þetta gjald og þessi lög og sagt að gjaldið standist þrátt fyrir félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, þar sem löggjafanum sé heimilt að leggja á skatt og ráðstafa honum. Auk þess sem meiri hluti Hæstaréttar nefndi að verja ætti tekjum af iðnaðarmálagjaldi til að efla iðnað og iðnþróun í landinu og til hagsbóta þeirri iðngrein sem skattlögð er. Þannig er talið að löggjafinn hafi ekki farið út fyrir heimildir sínar.

Þessu máli hefur verið vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu og er ég með flunkunýtt bréf, frá 15. október 2007, þar sem segir að dómstóllinn hafi ákveðið að taka málið upp og væntanlega dæma í því. Nú berast dómstólnum ógrynni mála og það eru mjög fá sem hann tekur ákvörðun um að fjalla um. Það hlýtur því að teljast dálítil frétt að Mannréttindadómstóll Evrópu skuli þann 15. október hafa ákveðið að leita eftir upplýsingum frá íslensku ríkisstjórninni varðandi þetta mál. Hann telur það skoðunar virði. Vel má vera að við fáum eitthvert tiltal frá Mannréttindadómstóli Evrópu varðandi þetta mál en það fjallaði um kæru manns sem ekki vildi greiða þetta gjald til Samtaka iðnaðarins.

Við getum svo líka skoðað jafnræðið. Ef einhver hópur iðnrekenda vildi stofna samtök til að berjast fyrir ákveðnu málefni, sem væri t.d. öndvert við það sem Samtök iðnaðarins eru að berjast fyrir, t.d. það að við höldum krónunni eða göngum alls ekki í Evrópusambandið, yrðu þeir að greiða félagsgjöld til beggja samtakanna, félagsins sem þeir eru nýbúnir að stofna og líka til Samtaka iðnaðarins sem eru á öndverðri skoðun. Þetta er ekki jafnræði miðað við önnur félög sem geta ráðið hvort þau greiða í Samtök atvinnulífsins eða Viðskiptaráð Íslands o.s.frv., þar sem menn geta ráðið því hvort þeir vilja ganga í samtök eða ekki. Það er ekki jafnræði á milli fyrirtækja sem hafa það val að stofna samtök og greiða til þeirra eða sleppa því og svo þessara sérstöku hópa eða fyrirtækja sem verða að greiða í Samtök iðnaðarins.

Það er heldur ekki jafnræði með samtökum, t.d. Samtökum atvinnulífsins, sem þurfa að leita að félagsmönnum og samtökum, t.d. félagi Íslenskra iðnrekenda eða Samtökum iðnaðarins, sem fá félagsgjaldið á silfurfati gegnum ríkið og borga fyrir 0,5% sem eins konar innheimtugjald. Þannig að ég tel að þetta mál rekist á stjórnarskrána á nokkuð marga vegu.

Nú síðustu daga, herra forseti, hafa borist fréttir um að prófessorar við ýmsa háskóla í landinu vilji stofna stéttarfélag. En samkvæmt lögum — sem ég er líka með frumvarp um, að hætta að skylda þá til að borga í ákveðið stéttarfélag, hvort sem þeir eru félagar eða ekki — ber þeim að borga í annað stéttarfélag. Og ríkið neitar að semja við þá, það vill bara semja við gamla stéttarfélagið. Í reynd hefur þessi skylda um félagsaðild gert að verkum að menn, opinberir starfsmenn, geta ekki einu sinni stofnað stéttarfélög. Mun ég ræða það sérstaklega þegar það frumvarp verður rætt hér.

Þetta gjald er sett á og í greinargerð með upphaflegu lögunum 1974 segir, með leyfi forseta:

„Starfsemi samtaka iðnaðarins hefur að höfuðmarkmiði eflingu iðnaðarins og mótun almennrar iðnaðarstefnu, er stuðlar að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun. Nauðsynlegt er að auka starfsemi samtakanna verulega, t.d. á sviði alhliða kynningar- og útbreiðslustarfsemi, sviði hagrannsókna, útgáfustarfsemi o.fl. Enn fremur þurfa samtökin að hafa bolmagn til að taka virkan þátt í aðgerðum er miða að jákvæðum breytingum á skipulagsbyggingu einstakra iðngreina, framleiðniaukandi aðgerðum í einstökum iðngreinum eða iðnfyrirtækjum, sölu- og útflutningseflandi aðgerðum og loks í fræðslu og þjálfun starfsfólks og stjórnenda iðnfyrirtækja.“

Markmið þessi bera með sér aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú eru uppi. Þegar hin upphaflegu lög voru sett á áttunda áratug tuttugustu aldar þótti enn sjálfsagt að hið opinbera kæmi að skipulagningu atvinnugreina og stýrði þróun þeirra. En síðan hafa viðhorf til skipulagningar gerbreyst.

Þau rök sem skynsamleg þóttu 1975 eiga síður við nú á tímum þar sem frelsi í atvinnulífi hefur verið aukið stórlega og dregið hefur verið úr skattheimtu með þeim afleiðingum að íslenskt atvinnulíf stendur í meiri blóma en nokkru sinni fyrr. Búið er að efla samkeppniseftirlit o.s.frv. Mjög margt hefur verið gert á síðustu árum sem er gott fyrir atvinnugreinina í heild þó ekki sé verið að hjálpa einstökum fyrirtækjum. Félagið sem hlýtur iðnaðarmálagjaldið er þannig með einhverjum hætti, með þessari athugasemd, gert ábyrgt fyrir framfylgd opinberrar skipulagsstefnu ríkisins sem er löngu búið að leggja af. Upphæðir iðnaðarmálagjaldsins hafa hlaupið á hundruðum milljóna og eru þá í raun skattur á viðkomandi atvinnugrein.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar. Því var síðast vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og ég tel að það eigi heima í þeirri nefnd.