135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

iðnaðarmálagjald.

11. mál
[15:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið sem hér er til umfjöllunar, sem hefur verið flutt nokkrum sinnum áður, um iðnaðarmálagjald og afnám þess. Það gjald kann að hafa ýmsar hliðar og mikilvægt að málið fái ítarlega og málefnalega skoðun af hálfu þeirra sem að því koma.

Tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs voru vangaveltur flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Péturs H. Blöndals, um verkalýðshreyfinguna, um skylduaðild að verkalýðsfélögum og hversu lýðræðislegt það fyrirkomulag telst. Ég er algjörlega á öndverðum meiði við hv. þingmann hvað það snertir. Ég lít á verkalýðsfélög sem undirstöðustofnanir í fjölþátta lýðræðislegu samfélagi.

Til hvers var stofnað til verkalýðsfélaga í öndverðu? Jú, fólk tók sig saman til að bæta kjörin, afla sér réttinda og standa uppi í hárinu á þeim sem höfðu völdin og fjármagnið á hendi. Verkalýðsfélög urðu til að skapa jafnvægi á vinnustaðnum og í samfélaginu almennt. Þetta er meginhlutverk verkalýðsfélagsins. Ýmsir atvinnurekendur hafa jafnan haft horn í síðu verkalýðsfélaga og viljað þau feig þótt það gildi almennt um atvinnurekendur á Íslandi að þeir viðurkenni réttmæti verkalýðsbaráttu og verkalýðsfélaga.

Pétur H. Blöndal hv. þm. leggur málið upp eins og hverja aðra mannréttindabaráttu. Ég vil benda á að sú mannréttindabarátta, sem kann að vera vel meint, getur hæglega snúist upp í andhverfu sína. Við sáum að í Bretlandi, þegar atvinnuleysi fór vaxandi á áttunda áratug síðustu aldar en undir lok þess áratugar komst mjög hægri sinnuð frjálshyggjustjórn til valda sem vildi verkalýðshreyfinguna feiga, notuðu atvinnurekendur sér það frelsi sem Margrét Thatcher færði þeim í lagasetningu og reglugerðarverki sem afnam þær kvaðir sem höfðu ríkt hvað þetta snertir, sömu kvaðir og hv. þingmaður leggur til að leggja af hér á landi. Atvinnurekendur hagnýttu sér það með því að stilla fólki upp við vegg, bjóða því vinnu að því tilskildu að það segði sig úr verkalýðsfélagi eða sækti ekki þar um inngöngu. Með öðrum orðum: Það sem lagt var upp með sem frelsis- og mannréttindabaráttu umhverfðist og varð til að svipta fólk sjálfsögðum réttindum.

Ef við hefðum það fyrirkomulag að fólk gæti auðveldlega staðið utan verkalýðsfélaga en jafnframt notið ávaxtanna af baráttu þeirra sem kosta nokkru til að afla réttinda og standa vörð um kjörin þá erum við komin upp með fyrirkomulag þar sem ákveðinn tiltekinn hluti samfélagsins nýtur ávaxtanna, fleytir rjómann ofan af, án þess að leggja neitt til. Ég held að það sé ekki heppilegt fyrirkomulag. Ég tel að við eigum að líta á verkalýðshreyfinguna og verkalýðsfélög, eins og ég sagði hér áðan í upphafi máls míns, sem einn af undirstöðuþáttum í fjölþátta, lýðræðislegu samfélagi.

Við getum síðan deilt um hvaða lög og reglur eigi að gilda um verkalýðsfélög, hvort hægt eigi að vera að stofna félög við aðrar aðstæður en lögin kveða á um, t.d. innan opinbera geirans. Þetta er atriði sem við þurfum að sjálfsögðu að skoða og á að vera í stöðugri endurskoðun. Ég vil í því samhengi benda á að fram hefur farið umræða á milli samtaka launafólks hjá hinu opinbera, BSRB, BHM og Kennarasambandi Íslands og fjármálaráðuneytis og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hugsanlegar breytingar á þessu laga- og reglugerðarverki. Ég ítreka að mér finnst eðlilegt að sú skoðun sé stöðugt við lýði. Við eigum ekki að festast í einhverju stöðnuðu formi hvað það snertir. En ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að lýsa yfir gagnrýni á meginviðhorfin í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég fékk ekki betur heyrt eða skilið en að hann vildi að fólk yrði undanþegið þeirri kvöð að ganga í verkalýðsfélög og láta eitthvað af hendi rakna til að styrkja baráttu þeirra sem ég tel vera baráttu okkar allra og baráttu lýðræðisþjóðfélags.