135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

iðnaðarmálagjald.

11. mál
[15:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að ég hafi heyrt þessa ræðu áður, kannski nokkrum sinnum, úr munni hv. þm. Péturs H. Blöndals: Ægivald, skattlagningarheimildir og einræðistilburðir hjá stéttarfélögunum og síðast en ekki síst að hætt sé við því að menn gerist makráðir og hætti að hugsa um upphaflegan tilgang þess félagsskapar sem þeir eru í forsvari fyrir.

Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að þar sem ég þekki til í verkalýðshreyfingu eru ekki uppi slíkir einræðistilburðir. Þar á sér stað mikið, kröftugt, gjöfult lýðræðislegt starf. Varðandi það hvort einhverjir kunni að gerast makráðir við tilteknar aðstæður þá segir einhvers staðar: Margur heldur mig sig.