135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

íslenska táknmálið.

12. mál
[16:40]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og fagna frumvarpinu. Ég fagna einnig þverpólitískri samstöðu þingmanna um þetta brýna mál. Ég tek líka undir þau orð sem hér hafa fallið, að nú sé lag að klára málið á þessu þingi. Það var upphaflega lagt fram af Sigurlín Margréti Sigurðardóttur á 130. löggjafarþingi þannig að ekki er eftir neinu að bíða. Þó að frumvarpið varði kannski ekki fjölmennan hóp, 300 Íslendinga, hefur sá hópur líklega verið einn einangraðasti hópur samfélagsins í aldanna rás. Í greinargerð er rakin saga menningar heyrnarlausra og einnig saga táknmálsins. Sú saga er stórmerkileg, ekki síst í ljósi þess að táknmál var ekki viðurkennt á Norðurlöndunum — sem oftast hafa staðið framarlega í flokki í þessum efnum — fyrr en undir lok áttunda áratugar síðustu aldar. Við erum að tala um 20 til 30 ára skeið þar sem táknmál er viðurkennt, örstutt árabil í sögunni.

Enn fremur er einangrunartímabilið, sem getið er um í greinargerðinni, mjög athyglisvert. Táknmáli var hafnað af þeim sem önnuðust kennslu heyrnarlausra og önnur tækni notuð, þ.e. venjulegt talmál. Reynt var að útiloka þennan menningarheim og í rauninni er stórmerkilegt að táknmálið skuli hafa lifað af. Hér hefur líka verið bent á að táknmál hefur að sjálfsögðu þróast á mjög ólíkan hátt milli landa, vafalaust hafa ekki allir áttað sig á því. Málfræðileg uppbygging þeirra er allt önnur en hinna hefðbundnu töluðu mála, byggist á öðrum forsendum og sérstaklega þá svipbrigðum og látbragði sem getur verið mjög skemmtilegt að rannsaka

Með þessa dramatísku sögu að baki tel ég ljóst að þetta er mjög merkilegt mál. Verið er að leiðrétta áralangt misrétti. Ég tel einnig að tengja megi þetta stöðu íslenskrar tungu í lögum eða stjórnarskrá eftir því sem við á. Staða hennar hefur ekki verið tryggð lagalega þó að hugmyndir um það mál hafi verið lagðar fram á þingi. Ég tel ekki úr vegi að þessi mál fari að einhverju leyti saman, þ.e. að við veltum því um leið fyrir okkur hvernig við getum tryggt lagalega stöðu íslenskrar tungu á Íslandi.

Hvað varðar frumvarpið er ljóst að þar er boðuð aukin þjónusta við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda. Ef frumvarpið verður samþykkt felst í því að fjármagn verður tryggt til þess að hlutirnir gangi upp. Ég vísa þá sérstaklega til túlkaþjónustunnar sem hér hefur verið nefnd. Enn fremur verður að tryggja að næg kennsla verði fyrir hendi í táknmálsfræðum og nægilegur fjöldi túlka. Í frumvarpinu felst að táknmálinu verður sinnt eins og móðurmáli í landinu. Með því að samþykkja frumvarpið segjum við: Hér er ákveðinn hópur sem á sér annað móðurmál, Íslendingar sem eiga sér annað móðurmál en íslensku, og það skiptir miklu máli að staða þess hóps sé tryggð.

Ég fagna frumvarpinu og vonast til að það verði afgreitt á þessu þingi.