135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi því varla að hv. þingmaður viti ekki betur en svo að segja að hagnaður bankanna komi eingöngu frá íslenskum neytendum. Hann hlýtur að vita að stærstur hluti af veltu bankanna er erlendis og mjög stór hluti, sennilega 80%, af hagnaði þeirra kemur erlendis frá. Reyndar er hagnaður þeirra af íbúðalánum nánast núll. Vaxtamunur bankanna af íbúðalánum, verðtryggðu lánunum sem menn eru að kvarta undan hér í umræðunni, er mjög lítill og það er vaxtamunurinn sem bankarnir taka en ekki vextirnir, því að eigendur fjárins eru lífeyrissjóðirnir að miklu leyti, eldra fólk, eldri borgarar sem eiga innstæður og þeir fá stærstan hluta þessara vaxta sem bankinn er að taka, bankinn tekur bara vaxtamun. Þetta hlýtur hv. þingmaður að vita.

Það sem mætti gagnrýna eru yfirdráttarlán bankanna til einstaklinga og ég hef margoft bent á að einstaklingar eiga ekki að taka yfirdráttarlán, þ.e. lán án gjalddaga. Það er lánafyrirkomulag sem er ætlað fyrirtækjum. En að halda að bankarnir taki allan hagnað sinn, þennan mikla hagnað sem þeir borga skatta af á Íslandi, af íslenskum almenningi er alrangt. Þeir taka hann erlendis frá og þeir borga skatta hér á Íslandi og það þykir mér dágott, að hægt sé að borga og halda uppi velferðarkerfi á Íslandi með starfsemi bankanna út um víðan heim þar sem erlendir sparifjáreigendur og erlendir lántakendur borga vaxtamun í samkeppni við erlenda banka á erlendri grundu til íslenskra fyrirtækja sem mynda hagnað hér á landi og borga af því skatta.