135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega betra að bankarnir borgi skatt af hagnaði en að þeir séu reknir með tapi, það getum við verið sammála um, ég og hv. þingmaður. Hins vegar vorkenni ég bönkunum ekkert að borga 10% skatt af hagnaði sínum, venjulegur launamaður er að borga að jafnaði 25% skatt af sínum tekjum. Mér finnst það dálítið mikið velferðarkerfi fjármagnsins að það borgi aðeins 40% af skattinum sem launþegarnir þurfa að borga og mér finnst að þeir séu ekkert of góðir til að búa við sömu skattalöggjöf og almenningur. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun eftir að ákveðið var að taka upp fjármagnstekjuskatt — sem var rétt skref á sínum tíma og ég studdi — að menn ættu að miða að því að færa saman skattlagningu á laun og skattlagningu á fjármagn. Það hefur því miður ekki þokast neitt áleiðis í þá veru.

Bankarnir græða dálítið á viðskiptum sínum við einstaklinga. Ég lét reikna út fyrir mig að þegar vextirnir hækkuðu úr 4,15% í 4,85% á íbúðalánum hvað það mundi hækka útgjöldin hjá þeim sem skulduðu þessa peninga. Fyrir þá sem þá skulduðu hámarkslán í Íbúðalánasjóði, hvort sem það var þar eða í bönkunum og var 15,9 millj. kr., þýddi þessi vaxtahækkun um 20% hækkun á greiðslubyrði, um 7 þús. kr. í hverjum mánuði í 40 ár. Það er bara ágætur afrakstur, virðulegi forseti, og síðan hafa vextirnir hækkað enn og eru orðnir ekki bara 4,85%, heldur komnir yfir 5% og farnir að nálgast 6%. Eitthvað hafa bankarnir fyrir sinn snúð.