135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu að mörgu leyti. Ég var ósammála henni um að ekki megi líta á verðtrygginguna. Hún er í sjálfu sér, eins og hv. þingmaður hefur sjálfur sagt, bæði belti og axlabönd fyrir þá sem lána peninga og viðskipti hljóta að byggjast á því að eitthvert jafnræði með þeim sem lána og hinum sem taka peningana að láni.

Þegar svona mjög er gætt að öryggi þeirra sem lána þá bitnar það á þeim sem taka peningana að láni, sérstaklega þegar skortur er á samkeppni. Það sem hefur mistekist í einkavæðingu bankanna er að það varð aldrei samkeppni á milli þessara viðskiptabanka. Þeir hafa einfaldlega snúið bökum saman gegn neytendum, gegn almenningi. Það hefur almenningur borgað dýru verði, virðulegi forseti.

Varðandi einkavæðingu bankanna þá held ég að fyrrverandi ráðherra mætti rifja upp að Landsbankinn var ekki seldur hæstbjóðanda.