135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:53]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Hæstv. forseti. Út af því sem fram kom nú síðast og hv. 2. þm. Norðaust. kom inn á þá eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til þess að staldra við. Í fyrsta lagi sagði hún að við björguðum ekki heiminum með því að afnema verðtryggingu. En það er enginn að tala um að bjarga heiminum.

Það sem þingflokkur Frjálslynda flokksins gerir að tillögu sinni er að leitað verði leiða til þess að bjarga íslenskum heimilum frá því að lenda í algjörum skuldaógöngum með þeim hætti að koma á því umhverfi að íslenskir lántakendur njóti svipaðra kjara og um er að ræða í nágrannalöndum okkar. Við erum í sjálfu sér ekki að kenna verðtryggingu lána um alla hluti sem hafa misfarist. Ég sagði áðan að það hefði skipt máli og sjálfsagt verið nauðsynlegt að bregðast við óeðlilegum aðstæðum með því að taka upp óeðlilegt fyrirkomulag.

En fyrirkomulagið er í sambandi við verðtrygginguna síðustu tíu ár, 15 ár eða síðustu 20 ár, er að verðtryggingin hefur hækkað og hækkað á meðan allar viðmiðanir í umhverfinu, þ.e. gengisviðmiðanir og annað, hafa annaðhvort staðið í stað eða breyst. Það skiptir töluvert öðru máli þar sem um er að ræða gjaldmiðil þar sem meginhlutinn af því sem keypt er og selt fer fram innan sama myntsvæðis. Annað gildir um breytingar hjá okkur þar sem við erum ein mesta innflutningsþjóð og útflutningsþjóð í heimi. En vísitala neysluverðs til verðtryggingar er síðan alveg sérstök mynteining.

Ég man eftir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkaði einu sinni töluvert mikið á milli mánaða. Ég leitaði eftir því við Hagstofuna hvernig á því stæði og m.a. kom þá í ljós að þegar verðupptaka fór fram þá höfðu spænskar gúrkur í viðmiðunarverslun verið uppseldar, þá hækkuðu skuldir íslensku heimilanna um hálfan milljarð. Svo nákvæm var reiknikúnstin varðandi vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Síðan kemur til ýmislegt annað varðandi verðtrygginguna, t.d. reiknast vextirnir alltaf á viðmiðunardegi af fullum þunga ofan á verðtrygginguna en það eru ekki teknir línulegir vextir, þ.e. milli tímabila. Þannig eru vextirnir í raun hærri miðað við það reikningskerfi sem við búum við. En verðtryggingin er ekki eini sökudólgurinn. Það sem við erum að benda á, þingflokkur Frjálslynda flokksins, í sambandi við þá þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu er að lánakjörin eru almennt ekki í samræmi við það sem gerist í okkar heimshluta. Þá segir fyrrverandi viðskiptaráðherra, hv. 2. þm. Norðaust.: Bankarnir eru ekki í samsæri gegn almenningi. Það er náttúrlega spurningin um hvað menn kalla samsæri, hvernig menn skoða eða hugsa það orð.

Það var nú einu sinni sagt að það mætti enginn hagsmunahópur koma saman, jafnvel þó það væri matarfundur eða þess háttar, öðruvísi en það breyttist í samsæri gegn almenningi. Íslensku lánastofnanirnar hafa ekki virkt aðhald. Þar er um að ræða fákeppnismarkað sem býður neytendum sínum lakari kjör en gerist annars staðar í okkar heimshluta.

Hvernig skyldi standa á því að íslensku bankarnir í útrásinni geta boðið neytendum í Noregi, neytendum í Danmörku, hagstæðari lánakjör en neytendum á Íslandi? Það er vegna þess að í Noregi og í Danmörku þurfa þeir að mæta samkeppni. En hér búum við á fákeppnismarkaði. Það er mergurinn málsins og þetta er, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti réttilega á, stórt mál. Þetta skiptir heimilin í landinu svo gríðarlegu máli. Eins og hann rakti, miðað við þann vaxtamun sem er í raun, vextina sem við búum við hér og það sem okkar nágrannaþjóðir búa við, þá eru þetta svo háar fjárhæðir að við erum að tala um velferð íslenskra heimila.

Það er ekki bara verðtryggingin sem spurningin er um. Yfirdráttarlán eru að nálgast það að vera komin með 25% vexti. Vextir af yfirdráttarlánum heimilanna í dag eru hvorki meira né minna en einn og hálfur milljarður á mánuði. Einn og hálfur milljarður á mánuði sem heimilin þurfa að greiða í vexti af yfirdráttarlánum. Hvernig á að vera hægt að standa undir svo gríðarlegum vaxtagreiðslum? Og þegar hv. 2. þingmaður Norðaust. segir: Ef verðtryggingin yrði afnumin þá mundu nú vextirnir fyrst fara að bíta. Þá velti ég því fyrir mér í hvaða sýndarveruleika hv. þingmaður býr.

Vaxtastigið hér er mun hærra en í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir að við búum við verðtryggingu, þannig að vextirnir bíta virkilega mikið á íslenskum lánamarkaði. Það er staðreynd.

Þess vegna er þessi tillaga okkar frjálslyndra, varðandi lánakjör einstaklinga, brýnasta hagsmunamálið sem um er að ræða fyrir íslensk heimili. Ég vænti þess að þingið vísi þessari tillögu til viðskiptanefndar.