135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:47]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir undarlegt ef hv. þingmaður vill ekki svara spurningu minni vegna þess að hún var ósköp einföld og enginn sandkassaleikur. Ég vildi bara fá það hér fram hvort þetta hefði verið rætt í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og hvort framsóknarmenn hefðu beitt sér fyrir því að svona styrkir yrðu teknir upp.

Mér þykir miður ef hv. þingmaður er svo viðkvæmur að hann þurfi að leita aftur til ársins 1991 þegar ég var í framhaldsskóla til dæmis og hv. þingmaður var líklega í grunnskóla, til þess að leita sér að röksemdafærslu í andsvar sem þetta í stað þess bara að svara spurningu minni. Spurning mín var einföld. Hv. þingmaður bað mig um að horfa fram á veginn. Ég bið þá hv. þingmann bara um að líta rétt um öxl með mér yfir síðasta kjörtímabil og fara yfir það mál með mér hvernig framsóknarmenn beittu sér í þessum efnum á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það er ekki erfið spurning. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kallar hér fram í að þeir hafi ekki farið með menntamálin. Engu að síður þá var um samstarf að ræða og hv. fyrrverandi þm. Dagný Jónsdóttir var varaformaður í menntamálanefnd þannig að ég geri ráð fyrir að menn hafi nú haft full tök á því að ræða þessi mál á þeim tíma.

Ég held að hv. þm. Birkir Jón Jónsson ætti ekki að vera svona viðkvæmur. Ég er til í að horfa fram á veginn með honum hvenær sem er. En við skulum líka stundum — hann má ekki vera viðkvæmur fyrir því — líta nokkra mánuði um öxl, eingöngu nokkra mánuði. Ég spyr hv. þingmann: Skammast hann sín fyrir gjörðir síns flokks í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar? (Gripið fram í.) Nei, þá er þetta ekkert viðkvæmnismál og þá hljótum við að geta rætt það sem þar fór fram á síðustu örfáu árum.