135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt nú að hv. þm. Pétur Blöndal væri það reyndur að hann vissi að í fjölda laga er kveðið á um kostnaðarhlut og framlög ríkisins sem síðan er ekki staðið við en fjárlögin kveða á um endanlegar upphæðir.

Varðandi það að sverja eið að stjórnarskránni og framfylgja þessum lögum þá væri ágætt fyrir hv. þm. Pétur Blöndal að spyrja samþingmann, hæstv. fjármálaráðherra, hvernig sá hæstv. ráðherra fylgir stjórnarskránni eftir að hafa svarið henni eið. Ég nefni Grímseyjarferjuna, sem sumir hafa kallað Hafnarfjarðarferjuna af því að skipið er enn þá í Hafnarfirði, í fyrrverandi kjördæmi fjármálaráðherra. En þar voru inntar af hendi greiðslur, svo sannarlega án fjárheimildar að mínu mati. En framlög í Bjargráðasjóð koma á fjárlögum hverju sinni og eru þar.

Ég ítreka að það er merkilegt og fróðlegt að heyra stefnu forustumanna Sjálfstæðisflokksins. Þótt Pétur Blöndal sé einstaklingur á þingi þá er hann kosinn af sjálfstæðismönnum á þing á grundvelli síns málflutnings og skoðana almennt, m.a. í stórum málum eins og landbúnaðarmálum. Mig minnir að hv. þingmaður hafi verið í þriðja, fjórða eða fimmta sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem sýnir það að sjálfstæðismenn treysta honum í þessum efnum. En það sýnir forganginn að fyrsta málið sem hv. þingmaður flytur er um með hvaða hætti megi höggva niður félagskerfi landbúnaðarins.

Ég lýsi mig fullkomlega andvígan þessari stefnu Péturs H. Blöndal, hv. þingmanns og forustumanns Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum eins og hún birtist á Alþingi.