135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:44]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði, að samþingmenn hans á þingi væru að flytja frumvörp sér til gamans. Flytja frumvörp sér til gamans. Ég vil biðja hv. þingmann að biðjast afsökunar á þeim ummælum sínum því að greinargerðin er upp á sjö blaðsíður. Menn gera það ekki til gamans. Þetta er ekkert gamanmál. Þetta er alvörumál.

Telur hann að stjórnarskráin gildi bara á Stór-Reykjavíkursvæðinu af því þingmennirnir sem flytja málið séu þaðan? Auðvitað gildir stjórnarskráin um allt land. Ef stjórnarskráin er brotin með því að peningum sé ráðstafað úr ríkissjóði með almennum lögum þá gildir það jafnt úti á landi eins og hér á Reykjavíkursvæðinu.

Síðan segir hv. þingmaður að ég hafi kosið að sleppa ákveðnum hluta af greinargerðinni. Hún er bara svo löng. Tíminn entist ekki til að lesa hana alla.

Hann talaði um að ég væri að etja bændum saman. Ég vil auka frelsi þeirra en ekki gera kröfu til þess að þeir greiði í félagasamtök sem þeir hugsanlega vilja ekki vera í. Vilji þeir vera í þeim þá geta þeir að sjálfsögðu haldið því áfram. Þetta er engin aðför að bændastéttinni. Það er alls ekki þannig. Það er frekar aðför að bændastéttinni að skylda hana til að gera þetta og hitt. Neyða hana til þess, hvort sem hún vill eða ekki.

Svo segir hann að röksemdafærslan sé utan velsæmis. Hvernig í ósköpunum getur röksemdafærsla verið utan velsæmis? Rök eru rök. Þau hafa ekkert með velsæmi að gera. Þannig að hv. þingmaður getur rifið niður rökin en það hefur ekkert með velsæmi að gera.

Ég vil biðja hv. þingmann að biðjast afsökunar á því að hann sagði að þetta frumvarp væri flutt til gamans.