135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

brottfall laga um búnaðargjald.

31. mál
[14:51]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson telur að Samfylkingin muni hér eftir sem hingað til styðja verkalýðshreyfinguna. Ég er þó engu nær um það hvort hún telji eðlilegt að styðja stéttarsamtök bænda í landinu. Bændur þurfa ekki síður en verkalýður, sá var skilningur gamla Alþýðuflokksins og sá hefur verið skilningur þeirra sem hafa aðhyllst samhjálp og félagshyggju í landinu, að standa saman í kjaramálum sínum. Frumvarpið sem hér liggur fyrir gengur þvert gegn því, það gengur í þá átt að brjóta niður félagskerfi landbúnaðarins.

Mikils misskilnings gætir varðandi ummæli mín um stjórnarskrána og ekki er alls kostar rétt haft eftir. Ég hafði orð á því að hv. þingmönnum suðvesturhornsins væri nær að líta til þeirra málefna sem að þeirra svæði lytu. Ég tel stjórnarskrárbrot afskaplega alvarlegt en mér er mjög til efs að búnaðarmálagjald, sem hefur verið við lýði langt aftur fyrir þá stjórnarskrá sem nú gildir, brjóti í bága við stjórnarskrána. Ef það gerir það á hið sama við um óskaplega mörg mál, eins og reyndar kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Mér þætti þá nær að taka heildstætt á málunum og án þess að veitast með þessum hætti að félagskerfi stéttanna í landinu.