135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:11]
Hlusta

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998. En ásamt mér eru flutningsmenn hv. þm. Jón Magnússon, Gunnar Svavarsson og Helgi Hjörvar.

Þetta mál er nú endurflutt. Það var flutt á 131. löggjafarþingi og gengur út á það að gerðar verði breytingar á skipun hæstaréttardómara frá því sem nú er, að í stað þess að dómsmálaráðherra skipi hæstaréttardómara þá muni Alþingi Íslendinga gera það.

Hér er lagt upp með að forsætisráðherra geri tillögu til Alþingis um skipan hæstaréttardómara sem tæki afstöðu til þeirrar tillögu og þurfi aukinn meiri hluta til að samþykkja tillögu forsætisráðherra, þ.e. að tvo þriðju hluta atkvæða á Alþingi þarf til að samþykkja skipan nýs dómara.

Virðulegi forseti. Hugsunin að baki þessu frumvarpi er sú að þingmenn hafa í reynd einir rétt til að starfa í umboði þjóðarinnar þegar kemur að ríkisvaldinu. Vissulega eru sveitarstjórnarmenn einnig kosnir en þingmenn hafa þá sérstöðu að sitja í umboði þjóðarinnar og sækja því vald sitt til þjóðarinnar. Grunnhugsunin með skiptingu ríkisvaldsins í þrjá þætti, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, byggist á að vald safnist ekki um of á einn þátt eða eina hendi ríkisvaldsins. Af þessum þáttum, þ.e. löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi, sækir aðeins þingið umboð sitt til þjóðarinnar og það er síðan þingið eða ríkisstjórnin sem skipar eða samþykkir framkvæmdarvaldið því engin ríkisstjórn getur setið nema að hún njóti meirihlutastuðnings á þingi. Þingið er því í reynd er bakhjarl ríkisstjórna hverju sinni.

Mér þykir það skjóta skökku við, og hefur þótt mjög lengi, að einn ráðherra í ríkisstjórn fái það hlutverk að skipa hæstaréttardómara, þ.e. dómara við æðsta dómstól landsins, æðsta dómstól hvað varðar þriðja þátt ríkisvaldsins,. dómsvaldið. Ég tel að það mundi styrkja Hæstarétt til muna ef Alþingi skipaði þessa dómara og gerði á þann hátt sem hér er lagt til.

Hér er reyndar lögð til ákveðin aðferðafræði sem hefur fengið talsverða umræðu og sitt sýnst hverjum. Tel ég að það hafi bara þroskað og styrkt málið að hafa fengið þá umræðu sem það hefur fengið. Ein þeirra gagnrýnisradda sem heyrst hafa er að ef þetta gerist inni á Alþingi verði þetta of pólitískt. Um það vil ég segja að ef þetta gerðist á Alþingi og tryggja þyrfti stuðning tveggja þriðju hluta atkvæða á þingi held ég að málið væri miklu gegnsærra en það er í dag. Það eru sem sagt fleiri sem koma að því og klárlega þyrfti að vera mikill stuðningur á bak við samþykkt tillögu forsætisráðherra eins og gert er ráð fyrir í þeirri hugmynd sem hér liggur fyrir. Ég held að það mundi bæði styrkja þingið og það yrði gegnsærra í reynd frá því sem nú er. Því verður seint haldið fram að núverandi fyrirkomulag sé hafið yfir þá gagnrýni sem oft hefur heyrst að á einhvern hátt sé pólitískt skipað í réttinn. Þar tilgreini ég ekki eða tilnefni sérstaka dómsmálaráðherra, heldur bara fyrst og fremst að þessi umræða hefur jafnan heyrst. Mitt mat er að það sé eðlilegt að til Alþingis, sem æðst handhafa ríkisvaldsins, sæki ríkisstjórnin styrk sinn og umboð og að á sama hátt mundi Alþingi skipa í Hæstarétt sem er æðsti dómstóll þjóðarinnar. Hér er vissulega ekki á ferðinni neitt sem ekki hefur verið reynt annars staðar. Auðvitað er grunnhugsunin í þessu sú sem Bandaríkjamenn hafa fylgt í gegnum tíðina og ég held að það skipti miklu máli að þessi leið, eða svona leið, verði farin, það styrki Hæstarétt og það skapar að mínu viti auknara gegnsæi við þessa skipun frá því sem nú er. Í grunninn er þetta sú hugsun eða sú hugmynd sem þetta frumvarp byggir á.

Í þessari útfærslu er málið lagt upp á þennan veg, með leyfi forseta:

„Þegar ráðherra hefur ákveðið hvern hann hyggst gera tillögu um sem hæstaréttardómara tilkynnir hann forseta Alþingis um það. Tillaga ráðherra skal hljóta meðferð í sérnefnd skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, áður en hún er borin undir atkvæði þingmanna. Nefndin skal fjalla um hæfni umsækjanda um embættið og skila skýrslu til þingsins með rökstuddri niðurstöðu um mat sitt innan fjögurra vikna. Jafnframt skal nefndin leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu.

Samþykki Alþingi tillögu ráðherra leggur hann hana fyrir forseta Íslands. Synji Alþingi staðfestingar á tillögu ráðherra gerir hann aðra tillögu og skal hún fá sömu meðferð.“

Í umræðu um þetta mál hefur það einnig fengið gagnrýni að hér er lagt til að umsagna Hæstaréttar skuli leitað. Í sjálfu sér er ýmislegt í þeirri gagnrýni sem vert er að horfa til en spurningin sem vaknar er þá frekar: Hvert annað væri hægt að leita? Væri hægt að leita til Lögmannafélagsins? Ég sé ekki að það sé betri leið. Eins og málið er lagt upp hér er lagt til að þessi leið sé farin en sá sem hér stendur er einnig tilbúinn að viðurkenna að hún er ekki yfir gagnrýni hafin. Það er ekki yfir gagnrýni hafið að þeir sem sitja fyrir í Hæstarétti þurfi að gefa umsögn um þetta, en ég verð að viðurkenna að ég hef a.m.k. ekki fengið betri hugmyndir og ef þær eru til væri gaman að heyra af þeim.

Í grunninn er hugsunin sú eins og ég hef rakið að forsætisráðherra, í stað dómsmálaráðherra í dag, geri tillögu til þingsins um að tiltekinn einstaklingur verði skipaður hæstaréttardómari og til þess að það gangi eftir þurfi aukinn meirihlutastuðning á hinu háa Alþingi. Þessa hugmynd tel ég vera í takt við þrískiptingu ríkisvaldsins. Þessa hugmynd tel ég vera í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi og ég held að það sé mikilvægt að breyta frá því fyrirkomulagi sem nú er.

Ég ætla heldur ekki að gera lítið úr því að vissulega eru skiptar skoðanir meðal lögmanna um hvert eigi til að mynda að vera hlutverk Hæstaréttar og hversu langt Hæstiréttur eigi að ganga með að túlka lög og að veita eða allt að því að setja lög eins og stundum hefur verið gagnrýnt. Sumir dómarar hafa verið mjög frjálslyndir. Þeir hafa viljað skýra lög rúmt og jafnvel skapa réttindi sem byggja á óljósum ákvæðum stjórnarskrár um félagsleg réttindi og fleiri. Aðrir eru mun íhaldssamari í viðhorfum og telja að það sé aðeins hlutverk dómaranna að dæma samkvæmt skrifuðum lögum og þeir eigi ekki að fara mikið út fyrir þann ramma. Vissulega skiptir samfélagið allt saman miklu máli hverjir sitja í Hæstarétti og það er mikilvægt að þeir sem þar sitja hafi mikinn stuðning. Það er mikilvægt að Hæstiréttur njóti þeirrar virðingar sem æðsti dómstóll þjóðarinnar þarf að njóta og ég tel að með breytingum af þessum toga mundum við styrkja Hæstarétt til mikilla muna. Það yrði gegnsærra en áður hver væri skipaður hæstaréttardómari og það væri til þess fallið að efla og styðja og styrkja enn frekar þrískiptingu ríkisvalds sem margir hafa gagnrýnt á undanförnum missirum að hafi verið að breytast meira í ráðherraræði sem er í engum takti við þá hugsun sem stjórnarskrá Íslands byggir á.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málið gangi til allsherjarnefndar.