135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:22]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmönnum þessa frumvarps fyrir að leggja það fram að nýju vegna þess að hér er á ferðinni álitaefni sem mér finnst vera mjög mikilvægt að sé tekið til umræðu, ekki síst vegna þess að töluvert miklar deilur hafa staðið á síðustu árum um skipan þeirra hæstaréttardómara sem í réttinn hafa valist. Ég kem kannski að því á eftir og sömuleiðis þeirri skoðun minni að ég tel að það sé tími til kominn að breyta því fyrirkomulagi sem núverandi lög um dómstóla gera ráð fyrir í þessu sambandi þrátt fyrir að ég sé kannski ekki endilega sammála þeirri útfærslu sem fram kemur í frumvarpinu. En ég dreg ekki fjöður yfir það að ég held að það sé ekki til nein ein niðurstaða varðandi þetta mál, ekki nein ein leið til að haga þessum málum betur en núverandi lög gera. Mér finnst gott framtak að leggja málið fram.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann og 1. flutningsmann tveggja spurninga. Ég mun spyrja þeirrar fyrri nú í þessu fyrra andsvari og þeirrar seinni í seinna andsvarinu. Ég tek eftir því að í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að dómarar við Hæstarétt séu tilnefndir af forsætisráðherra að fengnu samþykki Alþingis. Ég verð að segja að mér finnst dálítið sérkennileg ráðstöfun að forsætisráðherranum sé fengin þessi tilnefning en ekki dómsmálaráðherra vegna þess að dómsmálaráðherra hefur um áratugi verið æðsti yfirmaður dómstóla (Forseti hringir.) í landinu og dómsmála. Ég vil fá útskýringar á því hvers vegna lagt er til að þessu verði breytt.