135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:26]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef tilhneigingu til að vera þeirrar skoðunar að komi menn upp því fyrirkomulagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé eðlilegra að það sé dómsmálaráðherra sem tilnefnir nýtt dómaraefni í stað forsætisráðherra, enda hefur það verið þannig í stjórnskipan okkar að dómsmálaráðherra, eins og ég sagði áðan, hefur verið æðsti yfirmaður dómsmála í landinu. Mér finnst þetta verkefni heyra betur undir hans verksvið. Ég get ekki séð í frumvarpinu að það sé gert ráð fyrir því að forsætisráðherra hafi eitthvað með skipan héraðsdómara að gera og spurning hvort það sé eðlilegt að slíta þetta í sundur, að forsætisráðherra geri tilnefningu um hæstaréttardómara en dómsmálaráðherra um héraðsdómara. Ég tel að þetta tvennt ætti að vera á einni hendi. En gott og vel, þetta er bara sjónarmið sem komið hefur fram og allt í fínasta lagi með það. Þetta er atriði sem ég tel að þurfi bara að skoða.

Hin spurningin laut að því að það segir í 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Nefndin skal fjalla um hæfni umsækjanda um embættið og skila skýrslu til þingsins með rökstuddri niðurstöðu um mat sitt innan fjögurra vikna. Jafnframt skal nefndin leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu.“

Frumvarpið gerir því ráð fyrir því að Hæstiréttur hafi eftir sem áður það hlutverk að skila umsögn um hæfi og hæfni dómaraefna við réttinn.

Þetta er kannski það atriði sem hefur valdið mestum deilum í umræðum um þetta mál, sérstaklega vegna þess að Hæstiréttur hefur túlkað lögin þannig að honum sé heimilt að raða umsækjendum upp í forgangsröð í umsögn sinni eftir því hver dómstóllinn telur að eigi helst að fá embættið. (Forseti hringir.) Gerir frumvarpið ráð fyrir því að þetta haldist óbreytt?