135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:55]
Hlusta

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem tóku til máls í þessari umræðu og bentu á ákveðnar hliðar á málinu. Flutningsmenn velkjast ekki í vafa um að það eru margar mögulegar leiðir um það hvernig þessu skipunarvaldi skuli háttað. Hér er hins vegar lagt upp með að það sé þingsins að skipa hæstaréttardómara. Í því fælist að Hæstiréttur fengi aukinn styrk, jafnvel aukna vigt, ef svo má að orði komast, með því að fá skipun sína frá þinginu, þannig væri það þingið, sem er æðst handhafa ríkisvaldsins, sem færi með þetta vald og mér finnst það sjálfum skipta miklu máli.

Ég vil líka segja vegna ummæla hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að ég verð að viðurkenna að mér finnst um of lögð áhersla á umsögn Hæstaréttar. Mér finnst það í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins heldur fyrst og fremst hver skipar og hvernig skipuninni er háttað. Í reynd er það þannig að umsögn Hæstaréttar er nánast eina aðhaldið sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur í dag þegar tekin er ákvörðun um hvern skuli skipa í Hæstarétt. Það dregur kannski fram betur en ella að núverandi fyrirkomulag er ómögulegt en réttlætir kannski ekki að gera það að aðalatriði málsins að hæstaréttardómarar hafi umsagnarrétt um málið.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, vegna ummæla hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, að þetta mál er flutt hér í sennilega annað eða þriðja sinn og flutningur þess á ekki rætur sínar að rekja til einhverrar einstakrar skipunar dómsmálaráðherra í Hæstarétt heldur fyrst og fremst vegna þess að núverandi fyrirkomulag er ekki í lagi og flutningsmenn leggja til ákveðna hugmynd um hvernig megi betrumbæta það. Við hv. flutningsmenn erum fyrstu menn til að viðurkenna að þessi leið er ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk en að okkar mati er hún til þess fallin að styrkja Hæstarétt og gæti skapað meiri frið um Hæstarétt. Vitaskuld verður skipun í Hæstarétt aldrei hafin yfir gagnrýni enda dettur kannski engum slíkt í hug en þetta gæti orðið til þess að ná meiri sátt. Þegar menn segja að það að færa skipunarvaldið inn til þingsins feli hugsanlega í sér meiri pólitík, ef svo má að orði komast, þá held ég að ég taki ekki djúpt í árinni þegar ég segi að mikið hefur verið um að menn hafi talið að pólitík hafi ráðið för við skipun hæstaréttardómara einmitt vegna þess hvernig skipulagið er í dag. Það er lykilatriði í þessu, virðulegi forseti, ég held því að mikilvægt sé að Hæstiréttur fái þann stuðning eða styrk sem hér er lagt til.

Hér er einnig lagt til að Alþingi skipi aðeins dómara í Hæstarétt og það stafar af því að um er að ræða æðsta dómstól þjóðarinnar, æðsta handhafa dómsvaldsins og því eðlilegt að Alþingi sem æðst handhafa ríkisvaldsins sjái um þá skipun og því er þessi tillaga lögð hér fram.

Að öðru leyti vil ég þakka þeim sérstaklega sem tóku til máls og mér fannst á ummælum þeirra að hv. þingmenn væru almennt þeirrar skoðunar að það yrði að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem nú ríkir.