135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:33]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni tíðindi sem komu fram í fréttum Ríkisútvarpsins í gær um verðsamráð einokunarrisanna í matvöruverslun. Fyrrverandi starfsmenn, og jafnvel núverandi, fullyrða að slíkt samráð sé haft. Starfsmönnunum er ofboðið. Fréttamaður á Ríkisútvarpinu gerði sjálfstæða könnun, fór fyrst sem venjulegur neytandi í verslanir Krónunnar og Bónuss og síðar sem fréttamaður og sannreyndi að í annarri búðinni, þ.e. í Krónunni, var verðið lækkað.

Það hefur líka verið upplýst í fréttum að rafrænum vörumerkingum sé breytt margsinnis á dag. Því er enn fremur haldið fram að vöruverð sé hækkað á álagstímum, þegar mestur erill er í verslunum, og ekkert sé að marka heilsíðuauglýsingar þessara stórfyrirtækja, sem birtast bæði í blöðum og í sérstökum bæklingum, vegna slíkra verðbreytinga yfir daginn, bæði til hækkunar og lækkunar.

Það hefur líka komið fram að starfsmönnum verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands er úthýst úr þessum verslunum, þeir fá ekki að koma þar inn til að gegna hlutverki sínu. Opinbert eftirlit virðist vera í molum. Það er ef til vill ekki við þær stofnanir sem eiga að sjá um þetta að sakast heldur það umhverfi sem þeim er búið. Þær búa allar við fjársvelti og eru mjög fáliðaðar. Þær geta hreinlega ekki unnið að verkefnum sínum eins og berlega hefur komið í ljós á öllum sviðum samfélagsins þegar samkeppnsimál eiga í hlut, eftirlitið hefur algerlega brugðist. Stofnanir eins og Samkeppniseftirlitið eru í fjársvelti og talsmaður neytenda líka, auk þess sem hann virðist vera nánast einn á sinni skútu.

Í fjárlögum eru lítil sem engin teikn um breytingar og ég spyr hæstv. ríkisstjórn og ráðherra: Hvað hyggjast þeir fyrir í þessu? Hvað ætla þeir að gera? Hvernig ætla þeir að mæta þessu ábyrgðarlausa frelsi? Ég skora líka á neytendur að vera á varðbergi og fylgjast vel með við kassa, fara yfir strimla og gera athugasemdir ef þörf krefur. Það er oft þörf á því.