135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:45]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Verðsamráð og samkeppnisbrot, eins alvarleg brot og þau eru, eru ein alvarlegasta atlaga að hagsmunum almennings sem um getur verið að ræða. Sé um slíkt að ræða, eins og fréttir gærdagsins virtust bera með sér, þá er það mál sem þarfnast sérstakrar könnunar og spurning um hvort ekki þurfi að gera sérstaka úttekt á matvörumarkaðnum hvað það varðar, m.a. með því að bera saman útsöluverð og síðan heildsöluverð og ýmsa aðra þætti.

Það liggur fyrir, eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti réttilega á áðan, að um skerta samkeppni er að ræða á matvörumarkaðnum. Í hverju felst hún? Hún felst í því að hópur manna starfar við að safna upplýsingum um verð hjá samkeppnisaðila til að verðleggja vöruna á þeim grundvelli en ekki á hagkvæmnisgrundvelli eins og hvað hægt er að bjóða neytendum lágt vöruverð. Þar er ekki um frjálsa samkeppni að ræða, þar er um skerta samkeppni að ræða. Þegar um slíkt er að ræða er ekki um frjálsa, virka samkeppni að ræða heldur skerta samkeppni.

Í ítrekuðum samanburðarkönnunum á verðlagi á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum kemur í ljós að matvara er mun dýrari hér á landi. Það eru ýmsar ástæður sem liggja því til grundvallar en þar skera sig sérstaklega úr ákveðnir þrír vöruflokkar, búvörur, brauð og kökur og gosdrykkir. Hvernig skyldi standa á því að þessir sérstöku vöruflokkar skera sig svona úr? Ekki er það eingöngu vegna þess að framleiðslan eða framleiðendurnir séu að taka of mikið til sín. Gæti verið að það sé vegna skertrar samkeppni?

Ég legg áherslu á að það er full ástæða til að skoða þessi mál sérstaklega, bæði á vegum Samkeppnisstofnunar og eins er spurning hvort þingið eigi ekki að huga sérstaklega að þessu máli.