135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:50]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fréttaflutningur af meintu, ólöglegu verðsamráði í matvöruverslunum einokunarrisanna hér á landi er vissulega alvarlegt og rannsóknarefni, sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur sagt í fréttum að hann muni láta kanna til hlítar. Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur á löggjafarþinginu að í sumum þessara verslana hefur verðlagseftirliti verkalýðsfélaganna verið úthýst. Við þurfum að komast til botns í þessu máli og vita hvað er í gangi á markaði.

Ég vil líka nota tækifærið til að árétta það í þessari umræðu að heilbrigð samkeppni er forsenda þess að neytendur njóti bestu kjara á markaði og heilbrigða samkeppni tryggjum við aðeins með öflugu eftirliti ríkis og þar til bærra aðila. Samkeppniseftirlitið þarf að vera í lagi, við þurfum að hafa öfluga Neytendastofu, öflugan talsmann neytenda og ekki síður öfluga neytendur. En allt þetta þarf að fúnkera innan ramma ríkisins, innan laganna og reglnanna.

Í ljósi þess sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði um að Samkeppniseftirlitið skipti í raun engu máli, þá verð ég að segja, herra forseti, að ég skil eiginlega ekki þau ummæli. Að sjálfsögðu er öflugt samkeppniseftirlit forsenda þess að réttur neytenda á markaði sé tryggður. (JBjarn: Ég sagði …) Og í því ljósi vil ég minna hv. þingmenn á að hæstv. viðskiptaráðherra hefur nýverið kynnt áform sín um breytingar í neytendamálum innan viðskiptaráðuneytisins. Þau vill hann efla mjög og hefur sett fram áætlun þar um og ekki veitir af. (Forseti hringir.) Fyrir því hefur verið barist árum saman.