135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:52]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um mjög alvarlegt mál því að það er hvorki meira né minna en glæpsamlegt athæfi á markaði að ástunda samráð. Það er því augljóst að þarna hefur Samkeppniseftirlitið miklu hlutverki að gegna að fara yfir mál.

Ástæða þess að ég kem upp er ekki síst sú að ég er að velta því fyrir mér hvort komin sé ný stefna í landinu í sambandi við þessi mál öll því að hér hafa stjórnarsinnar og einn ráðherra talað eins og viðskiptaráðherra hafi eitthvert hlutverk í þessum efnum. Viðskiptaráðherra hefur ekkert hlutverk þarna, það er Samkeppniseftirlitið sem hefur það hlutverk og það starfar algjörlega sjálfstætt nema einhver ný stefna sé uppi af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr í landinu. Þetta er grundvallaratriði, ráðherrar fyrirskipa ekki Samkeppniseftirlitinu hvað það eigi að gera. Og hvort viðskiptanefnd fer að hitta Samkeppniseftirlitið í fyrramálið eða ekki — það er ekkert út á það að setja — en hún er ekki komin þangað til að skipa Samkeppniseftirlitinu fyrir. Þá erum við illa sett, Íslendingar, ef við ætlum að fara mörg ár aftur í tímann og gera Samkeppniseftirlitið pólitískt því það er það ekki og á ekki að vera.

Ég vil líka geta þess að í minni tíð sem viðskiptaráðherra voru gerðar gríðarlegar breytingar á þeim stofnunum sem heyra undir viðskiptaráðuneytið og lúta að eftirliti. Þá er ég að tala um Samkeppniseftirlitið, efnt var til embættis talsmanns neytenda sem vissulega starfar einn enda á hann að gera það en hefur engu að síður mikilvægu hlutverki að gegna, Neytendastofa varð til á þessum tíma og þessar stofnanir voru stórefldar með auknum fjárlögum frá ríkinu.