135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er mikill hallelújakór og allir eru óskaplega sammála um að hafa áhyggjur af þessu. Við skulum þá vona að ekki verði látið sitja við orðin tóm heldur verði eitthvað gert.

Mér finnst þrennt standa upp úr í þessum efnum. Í fyrsta lagi það grimma fákeppnisumhverfi sem hefur orðið til á þessu sviði viðskipta eins og mörgum öðrum á undanförnum árum. Við verðum að horfast í augu við það og taka það til umfjöllunar. Ætlum við að halda samkeppnislöggjöf okkar að þessu leyti óbreyttri og framkvæmd samkeppnislaga eða er hún of umburðarlynd gagnvart fákeppnisaðstæðum og markaðsráðandi stöðu fyrirtækja? Það verður ekkert undan því vikist að horfast í augu við þetta og taka á því.

Í öðru lagi er spurningin um reglur um verðmerkingar og verðmerkingarskylduna sem er í verslunum. Er hún að engu höfð? Er hún gagnslaus vegna þess að hún er framkvæmd þannig og hringlað þannig með hana að neytendur eru varnarlausir? Þá hrynur sjálfur grundvöllur þess að verðmerking sé skylda og að þær upplýsingar þurfi að vera réttar, eigi þær að gera gagn. Þá er auðvitað verið að hafa neytendur að fíflum eða draga þá á asnaeyrunum og það er óþolandi og ólíðandi.

Í þriðja lagi er það staðreynd, hvað sem líður áformum um úrbætur, að samkeppnisyfirvöld hafa verið fjársvelt og hafa ekki haft mannafla til að ráðast í ýmis þau verkefni á undanförnum missirum sem hugur þeirra hefur staðið til. Það vill svo til að ég veit að Samkeppniseftirlitið eða samkeppnisyfirvöld hafa nokkur undanfarin ár haft hug á því að ráðast í heildarúttekt á stöðunni á matvælamarkaði en þau hafa ekki haft peninga og mannafla í það vegna þess að önnur og þung verkefni hafa tekið allan þeirra tíma og alla þeirra fjármuni, þ.e. olíusamráð, meint vátryggingasamráð o.s.frv. Þetta er staðreynd. Og illu heilli hefur sú stóra heildarúttekt á stöðunni í smásöluverslun og matvöruverslun ekki farið fram sem núna væri gott að (Forseti hringir.) hafa í höndunum.