135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:15]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram í upphafi að ég hef mikla trú á því að jafnrétti sé þjóðarnauðsyn. Þegar ekki er jafnrétti, og þá á ég við jafnrétti fólks, þá er ekki verið að nýta krafta þjóðfélagsins sem skyldi. Þá er ekki hæfasti maðurinn eða einstaklingurinn ráðinn í starf heldur eru einhver önnur sjónarmið látin ráða.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi meiri trú á boðum og bönnum eins og þetta frumvarp ber með sér, hvort hún hafi meiri trú á því að troða jafnrétti ofan í kokið á atvinnulífinu en að gera það með frjálsum samningum. Hvort hún hafi meiri trú á hausatalningum og innantómum jafnréttisáætlunum sem enginn fer eftir, bara að þær séu nógu fallegar og hvort hún sé að búa til jafnréttisiðnað, jafnréttisiðnað sem að sjálfsögðu hefur áhuga á því að jafnréttið lagist ekki svo hann hafi nóg að gera.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki frekar viljað velja jafnréttisvottun til fyrirtækja, að Jafnréttisstofa veiti fyrirtækjum vottun um að þau stundi fullkomið jafnrétti. Ég hefði talið það miklu skynsamlegra. Þá værum við komin með A- og B-fyrirtæki í landinu, fyrirtæki sem raunverulega sýna jafnrétti í raun og fá vottun um það og fá þá væntanlega til sín miklu hæfara fólk, bæði karla og konur.