135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:21]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að hann vilji ekki boð og bönn, hann vilji frjálsa samninga. Getur hv. þingmaður upplýst hvað hann hafi staðið að mörgum lagasetningum sem þvinga fyrirtæki með ýmsum hætti til að breyta háttsemi sinni? Ég nefndi áðan samkeppnislögin, lög sem lúta fjármálamarkaðinum. Ég gæti talið upp og tínt til mörg ákvæði í frumvörpum sem hv. þingmaður hefur staðið að til að þvinga fyrirtæki til að breyta háttum sínum. En þegar kemur að því að stuðla að jafnrétti vegna þess að lagaúrræði sem við höfum sett og haft í 50 ár hafa ekki dugað, þá segir þingmaðurinn pass. Ég vil ekki þvinga fyrirtækið.

Það er nefnilega svo að jafnrétti kynjanna skiptir máli í þjóðfélaginu og það skiptir máli að það sé skilningur hjá öllum stjórnmálaflokkum um að fara leiðir sem skila árangri í þessu efni. Við höfum reynt allar aðrar leiðir en þá sem farin er í þessu frumvarpi og þær hafa ekki skilað nema litlu, bæði að því er varðar hlut kvenna í stjórnun fyrirtækja og að því er varðar það ójafnrétti sem ríkir í launamálum kynjanna.

Hv. þingmaður nefnir jafnréttisvottun eða jafnlaunavottun. Það er vissulega leið sem við höfum verið að skoða. Það er ekki komin niðurstaða í það enn milli ráðuneytanna sem eru að skoða þá leið. Það liggja fyrir tillögur um það efni, um að fara í þessa jafnlaunavottun sem er góð og gild með þessu frumvarpi en við verðum líka að átta okkur á því að það kostar mikla peninga. Sú leið sem nú er farin kostar 73 millj. en við erum að tala um að það að framfylgja ákvæðum frumvarpsins í þessu frumvarpi kosti 60 millj. En ég vil svo sannarlega ekki útiloka það að fara þessa leið, þ.e. jafnlaunavottun, af því að hún er góð meðfram ákvæðum laganna en ég spyr hv. þingmann: Er hann ekki tilbúinn að fylgja mér og okkur í því að skerpa á jafnréttislögunum þannig að við getum náð árangri?