135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:26]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að það er ekki verið að sveigja eða beygja Sjálfstæðisflokkinn á einn eða neinn hátt. Sú niðurstaða sem hér er lögð fram er samvinna milli þessara flokka um framlagningu á þessu máli. Varðandi fjármunina sem á að setja í þetta frumvarp ef að lögum verður, þá eru það 60 millj. kr. sem munu sjá dagsins ljós þegar frumvarpið hefur verið samþykkt. Vonandi verður það samþykkt fyrir jól og þá munum við væntanlega sjá þetta í fjárlagafrumvarpinu. Fyrst þarf að samþykkja frumvarpið áður en við setjum í það fjármunina.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ef jafnréttismálum er ekki framfylgt samkvæmt lögum þá eru það mannréttindabrot, ég get fullkomlega tekið undir það með hv. þingmanni. Áður en ég kem að því hvaða breytingar hafa verið gerðar frá nefndinni sem fjallaði um málið á síðasta þingi vil ég taka fram að frumvarpið eins og það var í þeim búningi var aldrei lagt fyrir síðustu ríkisstjórn. Þetta var fyrst og fremst þannig að nefndin skilaði af sér til fyrrverandi félagsmálaráðherra sem gerði svo ekki meira með það frumvarp og því kom aldrei í ljós hvort samkomulag mundi nást milli þeirra flokka sem þá sátu um það frumvarp eins og það lá fyrir.

Mér gefst væntanlega ekki tími til að ræða um þessar breytingar en ég vil þó stikla á stóru. Það er nýtt sérákvæði um bann við misrétti í auglýsingum. Eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu er skýrt nánar en var í fyrra frumvarpi. Heimildir til beitingar dagsekta eru gerðar skýrari og afmarkaðar betur en var í frumvarpinu. Jafnréttisstofa, en ekki kærunefnd jafnréttismála eins og var í frumvarpinu, hefur heimildir til beitingar dagsekta ef ákvæðum kærunefndar er ekki framfylgt eða jafnréttisáætlun ekki framfylgt eins og lögin kveða á um. Hlutverk jafnréttisþings er gert skýrara. Skipan Jafnréttisráðs er breytt, þar er fækkað úr 16 í 8. Jafnréttisumsagnir sem voru í frumvarpinu áður eru nú meðhöndlaðar þannig að með hverju stjórnarfrumvarpi fylgir svokallaður gátlisti (Forseti hringir.) þar sem farið hefur verið yfir hvaða áhrif stjórnarfrumvarpið (Forseti hringir.) hefur á jafnrétti kynjanna.