135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:51]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Það er sorglegt að við skulum þurfa að standa hér í dag og ræða þessi mál með þeim hætti sem gert er. En þannig er raunveruleikinn einu sinni. Ég lít svo á að hæstv. ráðherra stígi með frumvarpinu gríðarlega stórt skref í átt að raunverulegu jafnrétti kynjanna á Íslandi. Frumvarpið er því mikið fagnaðarefni.

Ég skynja því miður, og mér þykir leitt að skynja það hjá hv. þingmanni, tortryggni í garð þessa máls. Ég spyr mig líka að því hvers vegna tortryggja þurfi allt með því að hnýta við ræður sínar athugasemdum um að auðvitað verði að fylgja þessu fjármagn o.s.frv. Hér er einlægur vilji á ferð. Það er ætlun manna að setja í lög stórstígar framfarir til að taka á jafnréttismálum. Hv. þingmaður veit það eins vel og ég að megnið af frumvarpinu er byggt á niðurstöðu þverpólitískrar nefndar sem fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs áttu aðild að. Í sumum tilfellum er meira að segja gengið lengra en niðurstaða nefndarinnar gaf tilefni til.

Ég vil nefna sérstaklega það atriði sem hv. þingmaður nefndi sem veikleika í frumvarpinu en það er 19. gr. sem snýr að launaleynd. Þar segir að starfsmönnum skuli ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo. Ég veit ekki betur en niðurstaða nefndarinnar hafi gengið skemur, þar átti að banna atvinnurekendum að gera það að skilyrði fyrir ráðningu að starfsmenn greindu ekki frá launakjörum sínum. Hér er gengið lengra.

Ég vildi koma þessu á framfæri hér. Við þetta atriði í vinnu nefndarinnar, sem þó gengur skemur en frumvarpið, gerðu fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs engan fyrirvara.