135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[12:41]
Hlusta

Róbert Marshall (Sf):

Herra forseti. Í stuttu máli fagna ég þessu frumvarpi. Maður hefur fylgst með því í gegnum tíðina hvernig árlega hafa verið fluttar fréttir af því að enginn árangur náist í því að útrýma kynbundnum launamun á Íslandi þrátt fyrir mikinn og góðan ásetning í raun allra. Það hefur verið deginum ljósara, og alveg skýrt, að það skorti raunverulegt tæki til þess að taka á þessum mikilvæga málaflokki og ná árangri.

Í frumvarpinu er kveðið á um að jafnréttisyfirvöld hafi skýrari heimildir til að rækta eftirlitshlutverk sitt. En það er líka mjög mikilvægt að vilji stjórnvalda í þessum efnum liggi fyrir. Það er hægt að bera saman þróun mála hjá Reykjavíkurborg á árunum 1994–2004, í um það bil 10 ár, í þessum efnum vegna þess að árið 1994 voru held ég af 30 stjórnendum hjá Reykjavíkurborg eingöngu tvær konur. Þar náðist mikill árangur, í fyrsta lagi í því að útrýma kynbundnum launamun en líka í því að fjölga konum í stjórnunarstöðum. Ég held að ég muni það rétt að á þessum tíma hafi konum í stjórnunarstöðum fjölgað úr tveimur í 15 í þessum 30 manna hópi þannig að hlutföllin urðu jöfn. Það gerðist ekki með því að beita svokallaðri jákvæðri mismunun, þ.e. að ráða frekar konu en karl ef umsækjendur væru jafnhæfir, heldur lá vilji stjórnvalda í borginni það skýr fyrir að mjög margar hæfar konur sóttu um þessar stjórnunarstöður. Þannig jafnaðist þetta hlutfall hægt og rólega.

Ég tel að með þessu frumvarpi sé í raun og veru verið að benda konum á þá staðreynd að stjórnvöld í landinu í dag eru jafnréttissinnuð og munu taka á ráðningum og launamálum með jafnréttissjónarmið til grundvallar.

Ég get líka tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að það er full ástæða til að fara með þennan málaflokk niður í skólakerfið. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki væri full ástæða til að taka t.d. kynjafræði sem hefur verið kennd með nokkuð góðum árangri í Háskóla Íslands og færa niður í framhaldsskólana og jafnvel grunnskólana þar sem farið er yfir hlutverk kynjanna, ræddur og kynntur fyrir stúlkum réttur þeirra til jafnra launa, hvernig eigi að bera sig að við launaviðtöl o.s.frv. Þar mætti á sama tíma tala við unga menn og drengi um klám, þýðingu þess, og virðingu fyrir mannréttindum og mannlegri reisn.

Ég get hins vegar ekki tekið undir þá undarlegu röksemdafærslu sem birtist mér í málflutningi hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að verðlauna sérstaklega fyrirtæki fyrir það að virða mannréttindi í landinu. Dýr mundi Hafliði allur. Er ekki troðfullt af fyrirtækjum í landinu sem fara að lögum? Á þá að veita þeim einhvern sérstakan skattafslátt? Ég tala nú ekki um að fara að veita þeim skattafslátt fyrir jafnsjálfsagðan hlut og að virða mannréttindi og stjórnarskrána í landinu.

Hann óskaði mér í gær til hamingju með jómfrúrræðu mína og gaf henni einkunn. Ég tel að sama skapi fulla ástæðu til að óska honum til hamingju með nýfengið bandalag og vinfengi við Pétur H. Blöndal í þessum efnum. Ég las það nýlega í fjölmiðlum að hv. þingmaður hafi hafið nám, og ef þetta er afraksturinn af því námi þyrfti hugsanlega að endurskoða þá hugsun og þau námsgögn sem liggja því til grundvallar. En þetta er svona sambærilegt því að fara að verðlauna þingmenn og sérstaklega gefa þeim bónus fyrir að mæta í vinnuna sína.

Þetta er réttlætismál. Það eru margar mismunandi forsendur sem liggja því til grundvallar að menn eru jafnréttissinnaðir. Sumir karlmenn nefna dætur sínar, systur og móður í þeim efnum. Fyrir mér er þetta fyrst og fremst spurning um réttlætismál. Þetta snýst um megininntak jafnaðarstefnunnar, þá grunnhugmynd að sýna öðrum hlutdeild, ef einhver býr við fátækt er líf manns sjálfs fátækara fyrir vikið. Ef einhver býr við óréttlæti er veröld manns óréttlátari fyrir vikið.

Þetta er réttlætismál og að mínu mati mikill áfangasigur í jafnréttismálum á Íslandi.